13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

141. mál, skjöl í Árnasafni

Fyrirspyrjandi (Benedikt Sveinsson):

Eg hefi leyft mér að koma fram með þessa fyrirspurn út af þingsál.till., sem borin var fram af háttv. 1. þm. Árn. (H. Þ.) á síðasta alþingi á þingskjali 575, og þá samþykt þar. — Í þessari þingsályktunartill. var skorað á stjórnina að hlutast til um og gera ráðstafanir til þess, að landinu væri skilað aftur skjölum og bókum úr skjalasöfnum biskupa, kirkna og annara opinberra stofnana hér á landi, sem lánaðar voru Árna Magnússyni, en aldrei skilað, og enn eru í safni hans í Kaupmannahöfn.

Í umræðum þeim, er urðu um fyrnefnda þingsályktunartillögu á síðasta þingi, gerði flutningsm. ráð fyrir því, að stjórnin skýrði frá árangrinum af starfi sínu á næsta alþingi, en hún hefir ekki gert það enn, og því hefi eg leyft mér að koma fram með þessa fyrirspurn, með því að málið er mjög mikilvægt og þess vegna nauðsynlegt, að því sé haldið vakandi.

Eg vildi nú leitast við að skýra málið dálítið, en get verið fáorður, vegna þess, að til er opinber skýrsla mjög ítarleg um þetta mál, eftir háttv. 1. þm. Rvík., Jón Þorkelsson landsskjalavörð, og eru þar taldar upp bækur þær og skjöl, sem héðan eru léðar og ekki hefir skilað verið aftur til þessa dags.

Eins og öllum er kunnugt, voru Íslendingar hin mesta mentaþjóð, og mjög mikið ritað hér á fyrri öldum. — Mörg merk og mikilsverð handrit geymdust í landinu fram eftir öldunum, en svo var meginþorra þeirra sópað burtu á 17. og 18. öld. Maður sá, er ótrauðast vann að þessu, var Árni Magnússon, hann stóð og ágætlega að vígi, því að hann ferðaðist um landið um mörg ár og gat þá auðveldlega komist á snoðir um, hvar handritin var að finna og safnað öllu, sem fáanlegt var. Hann hafði veturvist í Skálholti nokkra vetur og tók þá afskrift af flestum bréfum, sem við stólinn voru. Vann hann um leið að því að afskrifa skjöl biskupsstólsins á Hólum, en gat ekki lokið við það til hlítar, meðan hann dvaldist hér. — Hann fékk því skjölin léð til Kaupmannahafnar, en entist ekki aldur til að skila þeim, og eru þau í safni hans í Kaupmannahöfn, enn þann dag í dag.

Eg skal þá nefna það helzta, sem Árni flutti á þann hátt utan. Er þess fyrst að geta, að Jón biskup Vídalín seldi honum sumt af skjölum stólsins en lánaði sumt, t. d. lánaði hann Árna tvær fornar lögbækur stólsins á skinni, sem enn eru í safni hans. Einnig eru þar bréfabækur biskupanna, Brynjólfs og Gissurar, er Árni fékk hjá afkomendum þeirra, en auðvitað voru þær bækur eign biskupsstólsins. Skálholtsstóll varð þó betur úti en Hólastóll. Frá Hólum fékk Árni ekki að eins hinar fornu skjalabækur þeirra Jóns biskups Vilhjálmssonar, Ólafs Rögnvaldssonar o. fl., heldur um leið á sjötta hundrað skinnbréfa; Árni ætlaði að skila þessum bókum og skjölum aftur, því að á mörg bréfin hefir hann skrifað »sk.« = skilist og á laust blað stendur með hans hendi: »þetta læt eg fylgja bókinni til baka«.

Auk þess, sem nú hefir verið talið, fékk hann fulla bókakistu frá Bessastöðum með ýmsu merku í t. d. klaustrabréfum og jarðabókum.

Árni dó áður hann fengi skilað bókunum og var kallað, að hann hefði arfleitt háskólann í Höfn að safni sínu. Heimildir þær, sem háskólinn hefir fyrir safninu eru þó undarlega veigalitlar, því að frumritið af gjafabréfinu er ekki til, heldur að eins óstaðfest afrit, sem ekki er alskostar ótortryggilegt, því að þar er talað um hann sem dáinn og þó á hann að hafa samið það og undirskrifað sjálfur. Eftir að Árni var látinn liðu 30 ár, svo að ekkert var gert við safnið, en 1760 var því raðað og samin skrá yfir það og því eignað alt sem fanst, þótt það væri sannarlegt gerræði.

Fyrir utan þennan beina og skýlausa rétt, sem landið hefir til þeirra bóka og bréfa í safninu, er héðan voru léð og eg hefi nú stuttlega vikið að, þá má bæta því við, að margt af þessu er þess eðlis, að Danir hafa ekkert með það að gera. Svo ert. d. um jarðabækurnar, en mjög óþægilegt að hafa þær ekki í söfnunum hér.

Enn fremur er það nauðsynjalaust og óviðurkvæmilegt, að frumritin séu geymd í safninu, þar sem Árni gerði mjög nákvæm atrit af þeim, sem safn hans á; það sýnir og meðal annars, að hann hefir ætlað að skila frumskjölunum.

Það hefir stundum verið sagt, að Ísland eigi Árna Magnússyni mikið að þakka; hann hafi safnað handritum vorum, sem annars mundu hafa glatast. En eg vil þá minna á það, að tveim árum fyrir dauða hans eyddist mikið af safni hans í bruna í Khöfn, svo að ekki mun annarsstaðar hafa farist meira af dýrmætum skjölum íslenzkum, og í annan stað, að forn bréf hafa geymst vel hér á landi. Reykholtsmáldagi er hið elzta skjal, sem nú þekkist frá fornöld vorri, og hefir það altaf geymst hér á landi, og þau bréf, sem til voru á dögum Árna í Skálholti eru til á biskupsskjalasafninu enn í dag. Það er því með öllu ósannað, að skjöl vor hafi geymst betur í Höfn en heima, og veitir slíkt háskólanum því engan siðferðislegan rétt til að halda þeim. Og þótt háskólinn hafi ekki skilað skjölunum til þessa, heldur haldið þeim í heimildarleysi um langan aldur, þá veitir það honum engan eignarrétt á þeim, heldur þvert á móti. Hinn siðferðislegi og lagalegi réttur er því vor megin í máli þessu.

Eg óska eftir að stjórnin geri grein fyrir því, hvað málum þessum er nú komið, og eg hefi leyft mér að benda á þessi atriði í málinu til að sýna, að það er ekkert hégómamál.