27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

12. mál, laun sóknarpresta

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg hefi lítið að segja um þetta frumv. við þetta frh. 1. umr. málsins. Deildin getur séð það, sem nefndin leggur til í nefndarálitinu. Frumv. er svo stutt, að eins ein gr.

Hér er um nauðsynlega réttarbót að ræða. Það var meining milliþinganefndarinnar, að breyting á launakjörum presta kæmist jafnóðum á og brauðin losnuðu. En þessu breytti stjórnin í frumv. sínu, er hún lagði fyrir síðasta þing, þannig að prestar í þeim prestaköllum þar sem engin breyting átti að verða á mættu kjósa hvort þeir vildu ganga undir launabreytinguna, eða hitt, að gera það ekki. Þannig samþ. Ed. þetta ákvæði 1907, en Nd. breytti því, er hún hafði það til meðferðar síðustu daga þingsins, þannig að sextugir prestar gætu orðið hlunninda laganna aðnjótandi, þótt ekki vildu þeir ganga að neinum breytingum á prestaköllum sínum, en þessi breytingartillaga hefir eflaust ekki verið athuguð nógu rækilega í Nd. Þegar frumv. kom til Ed. aftur, sá deildin að vísu, að með breyt. Nd. væri misrétti gert sumum sextugum prestum, en af því að áliðið var mjög tímans, vildi deildin ekki stofna frumv. í voða með því að fella breyt. Nd. úr frumv. Þetta misrétti milli sextugra presta er líka komið nú á daginn. Sextugir prestar í þeim prestaköllum, þar sem engin breyting kemst á, fá enga launabót, þótt þeir gjarna vildu ganga að breytingunni, en sé það fyrirmunað af hindrunum, sem þeim eru ósjálfráðar. En jafnaldrar þeirra, sem standa á móti breytingunni, fá launabót. Umkvartanir um þetta misrétti hafa líka komið og þess vegna hefir biskup farið fram á að þetta frumv. væri lagt fyrir þingið.

Nú verður öllum sextugum prestum gefið færi á að komast undir lögin. Aðalinntakið er í nefndarál., og þarf eg ekki að skýra það fyrir háttv. deild. Þessi breyting bakar ekki landsjóði verulegra útgjalda, því að þessir prestar eru svo fáir. Biskup segir að kostnaðaraukinn til að byrja með geti ekki farið fram úr 3,500 kr., er fari svo minkandi. Þessi réttarbót er því sjálfsagðari, sem hér er alloftast að ræða um menn, sem eru orðnir slitnir eftir langt starf og hafa langa lítt launaða embættisþjónustu að baki sér. Eg skal þá ekki tefja tímann með langri ræðu, en vona að háttv. deild láti frumv. ganga sinn gang.