15.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

Umræður um kjörbréfin

Steingrímur Jónsson:

Eg skal leyfa mér að láta það álit mitt í ljós, að eg er mótfallinn því að þetta mál sé sett í sérstaka nefnd. Með þeim ákvæðum í þingsköpunum að þingið gangi í 3 deildir til þess að rannsaka kosningar þingmanna skoða eg að nefnd sé þegar skipuð í málið.

Þessi nefnd er að vísu öðru vísi kosin, sem sé með hlutkesti en ekki með hlutfallskosningu og er því alveg óháð politískri flokkaskipting.

Þessi nefnd, sem skipuð er samkv. þingsköpunum, hefir haft öll þau sömu gögn og skilríki til rannsóknar og ný nefnd, sem kosin yrði, getur haft. Það væri öðru máli að gegna ef ný gögn væru til eða gætu komið fram í málinu.

Eg álít að þingið eigi að samþykkja þessa kosningu til að koma í veg fyrir að kjördæmið verði þingmannslaust á þessu þingi, því gallarnir eru lítilfjörlegir.