16.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

Umræður um kjörbréfin

Kristján Jónsson:

Nefnd sú, er sett var í þetta mál, hefir ekki getað orðið á eitt sátt um málið. Meiri hlutinn hefir orðið með því að samþykkja kosninguna eftir að nefndin hafði rannsakað vafa-seðlana. Við rannsóknina reyndust meðal annars 2 atkvæðaseðlar dr. Valtýs Guðmundssonar gallaðir; en þessa seðla hafði kjörstjórnin tekið gilda; um þessa 2 seðla er vafinn, og á þeim velta úrslit kosningarinnar. Þó eru gallarnir ekki svo vaxnir, að meiri hluta nefndarinnar þyki ástæða til að ógilda kosninguna fyrir þá sök. Eg skal nú skýra frá málinu öllu. Kosningin hefir fallið svo eftir úrskurði kjörstjórnar, að dr. Valtýr hefir hlotið 57 atkv., en síra Björn Þorláksson 56; vafa-atkvæði eru 6. Einn atkvæðaseðill dr. Valtýs Guðmundssonar, er vefengdur var af keppinaut hans, var talinn ógildur af kjörstjórninni, og vér leggjum til að á það verði fallizt. Þá er einn atkvæðaseðill Björns Þorlákssonar, er mótmælt var, en kjörstjórnin dæmdi gildan; vér leggjum til að hann verði ógildur gjör. Þá eru 4 atkvæðaseðlar dr. Valtýs Guðmundssonar, er mótmælt var af hálfu síra Björns Þorlákssonar, en allir voru gildir teknir af kjörstjórninni. Nefndin er sammála um að leggja það til að einn þessara seðla verði dæmdur ógildur, en annar tekinn gildur; og að þessu leyti er nefndin öll á einu máli. Nú er atkvæðum svo komið, að dr. Valtýr hefir 56 gild atkvæði, og Björn prestur Þorláksson 55 atkv. En eftir er að úrskurða um 2 vafa-seðla dr. Valtýs (af áðurnefndum 4 atkvæðaseðlum); verði þeir metnir gildir, er hann rétt kjörinn, en verði þeir báðir dæmdir ógildir, er kosning hans ógild. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að þessir 2 atkvæðaseðlar séu teknir gildir. Á þeim eru krossamir við nafn dr. Valtýs að vísu gallaðir, en þó eigi svo mjög, að meira hluta nefndarinnar þyki nægileg ástæða til að telja seðlana ógilda fyrir þá skuld og láta þetta valda ónýting kosningarinnar. Báðum seðlunum er svo háttað, að önnur álman í krossinum er tvöföld, en annað er ekki athugavert við þá. Ef þessir seðlar eru teknir gildir, væri dr. Valtýr kosinn með 1 atkvæðis mun; ef þeir eru báðir gerðir ógildir, er hann ekki löglega kosinn, og verður þá spurning um, hvort síra Björn sé löglega kosinn.

Nú er að athuga 19. gr. og 38. gr. kosningarlaganna og er það þá alls eigi full-ljóst, að ógilda beri seðil, þar er krossinn er innan hrings, ef og af því að önnur álman er tvöföld. Að vísu má segja að seðill þannig lagaður sé gallaður, en þó eigi svo, að áliti meiri hluta nefndarinnar, að ástæða sé til að ógilda hann, úr því að glöggur kross er innan í hringnum, og úr því að lögin ekki beint segja það.

Annars leggur nefndin, meiri hluti hennar, aðaláherzluna á það, að það sést glögglega af þessum seðlum og ótvíræðlega, hvern kjósandi hefir viljað og ætlað að kjósa, og það er enginn vafi á því, að kjósendur hafa ekki ætlast til þess, að þessi tvöföldu strik hefðu áhrif á kosninguna.

Eg þykist þá hafa skýrt frá því hlutdrægnislaust, hversu seðlunum hafi háttað verið, og getur hver einstakur þingmaður fyrir sig athugað seðlana og greitt atkvæði um kosninguna eftir Því, hvort hann vill meta þá gilda eða eigi.