19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Kristinn Daníelsson:

Eg þakka háttv. 4. kgk. þm. fyrir hve vel hann tók í tillögu mina um lán til hreppsfélaga til barnaskólabygginga, en á hinu undraði mig, hve kuldalega hann talaði um unglingaskólana. Hann vill láta sveitar- og sýslufélögin styrkja þá, en þau eru fremur treg til þess, enda ber og þess að gæta, að útgjaldabyrðar þær, sem á þeim hvíla, hafa aukist stórkostlega hin síðari árin. Eg hefi borið tillögu mína undir fræðslumálastjórann og er hann mér fyllilega samdóma í þessu efni. Annars vildi eg leyfa mér að benda á, að tillagan er meinlaus, því að ef sveitarfélögin leggja fram mikið fé, þá tryggir hámarkið, 750 kr., að ekki gangi alt of mikið til einstakra skóla, og í annan stað á að jafna styrknum niður á hina einstöku skóla, eftir því hve mikið er gert á hverjum stað, svo að úthlutun styrksins verður alveg jafnréttlát, þótt tillaga mín nái fram að ganga. Fyrir mér vakir aðallega sá skóli, sem eg þekki bezt. Var eg í fyrstu að hugsa um að koma fram með sjálfstæða tillögu um styrk til hans, en bæði var það, að eg var hræddur um, að hún fengi lítinn byr í þinginu, og jafnframt hélt eg að bæta mætti einnig úr þörfum hans með því að fara þá leiðina, er tillaga mín fer fram á. Eg vona því að deildin, að öllu þessu athuguðu, fallist á br.till. mína.