18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Magnússon):

Eins og þinginu er kunnugt, eru það tvö atriði í kæru sr. Björns Þorlákssonar út af kosningunni á Seyðisfirði, sem komið hafa til úrskurðar þingsins. Fyrst það, hvort kosning dr. Valtýs Guðmundssonar skyldi gerð ógild, og í öðru lagi það, hvort kærandinn, sr. Björn Þorláksson, skyldi verða samþyktur sem þingmaður Seyðfirðinga.

Fyrra atriðið, um ógildingu kosningar dr. Valtýs, er nú þegar útkljáð mál og þarf því ekki að ræða um það hér, heldur einungis um hitt, hvort keppinautur hans skuli hljóta þingsetu. Úrslit þessa atriðis í kærunni virðast vera komin undir því fyrst og fremst hvern skilning ber að leggja í 29. gr. stjórnarskrárinnar: »Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess eru löglega kosnir«.

Í fyrstu grein þingskapanna segir, að þingmenn skuli koma saman til þess að dæma um kosningu hver annars, og sem sönnun þess að þeir séu þingmenn, eiga þeir að hafa skírteini frá yfirkjörstjórn, — kjörbréf.

Ef nú þinginu virðist eitthvað sérlega athugavert við kjörbréf einhvers þingmanns, þá getur þingið dæmt kosningu hans ógilda. Lögin gera ráð fyrir því, að einungis þeir, er kjörbréf hafi eða yfirlýsing kjörstjórnar um að þeir séu þingmenn, geti verið þingmenn. Það er enginn efi á því, að þeir menn, er koma á þing með kjörbréf frá yfirkjörstjórn, eru þingmenn, en alþingi getur gert kosninguna ógilda, svo að þeir hætti að vera þingmenn.

Álit háttv. minni hl. getur á engan hátt samrýmzt við ákvæði hinna fyrstu greina í þingsköpunum né við ýmis ákvæði kosningarlaganna, t. a. m. 52. gr., 48. gr. o. fl. Væri álit minni hl. rétt, þá ætti yfirkjörstjórnin eigi að vera til annars en telja saman atkvæðin.

Annars sýnist mér lögin vera svo ljós í þessu efni, að það ætti að vera hreinn óþarfi að vera að orðlengja um þetta, því þau gera ótvírætt ráð fyrir því, að enginn annar geti verið þingmaður en sá, sem hefir úrskurð yfirkjörstjórnar fyrir því, að hann sé þingmaður. Með öðrum orðum, að þeir hafi kjörbréf. Það er enginn vafi á því, að lögin ætlast einungis til þess, að alþingi sé að eins ógildingardómstóll í svona löguðum málum, og verður það að álítast hagkvæmlegt.

Háttv. minni hl. talar um þá hættu, sem af því geti stafað fyrir kjördæmið, ef kosning kæranda verður eigi tekin gild. Eg get nú ekki séð, að hættan sé fjarska mikil, því ekki þarf lengi að standa á því, sérstaklega ekki eins og hér er ástatt, að kjördæmið kjósi sér aftur þingmann.

Aftur á móti get eg vel skilið það, að háttv. minni hl. vilji fá kosningu sr. Björns Þorlákssonar viðurkenda af þinginu. En eins og eg hefi áður bent á, er það algerlega á móti lögunum. Til þess að þingið fari að kjósa þingmann eða lýsa þingmann kosinn, þarf að breyta lögunum í þessu efni, en það vona eg nú reyndar að aldrei verði. Eftir núgildandi lögum liggur ekkert annað fyrir í þessu máli, en að nýjar kosningar fari fram í kjördæminu. Annars hefði aldrei átt til þess að koma að þetta atriði kæmi einu sinni til umræðu hér, því eins og eg hefi þegar bent á, finst mér lögin algerlega ótvíræð í þessu efni.