18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

Umræður um kosningu Seyðisfjarðarkaupstaðar

Jón Ólafsson:

Eg ætla mér ekki að tala um það, hvort lögmætt sé, að síra Björn Þorláksson sé tekinn gildur þingmaður kjörbréfslaus samkvæmt beiðni hans. Virðul. þm. Vestm. og Borgf. hafa gert ljósa grein fyrir því, og er eg þeim öldungis samdóma.

Það eru 2 smáatriði, sem eg vil leyfa mér að minnast á og óviðkunnanlegt er, að séu látin óátalin. Annað atriðið er það, að í nefndarál. minna hlutans er talað um, hversu hættulegt það kunni að verða, að kjörstjórnir nái úrskurðarvaldi um kosningar. Það er alls eigi hættulegt, því að bæði varðar hlutdrægni kjörstjórna refsingu eftir hegningarlögum, og hegningarákvæðum kosningarlaganna, svo sem virðul. þingm. Borgf. tók fram. En svo er annað, sem til athugunar kemur, ef kosning síra Björns verður tekin gild. Það er það, að með því kæmist sú venja á, að þm. gætu skotið til þingsins kosningum, þegar er um vafaseðla að ræða, og gæti þá svo farið, að þingið færi að kjósa þingmenn takmarkalaust eða nálega það, og mundi afleiðingin verða sú, að hvert þing yrði einlitt. Ófyrirleitinn meiri hluti mundi ávalt skera úr eftir flokksfylgi, og þar sem vefengja má alla seðla, þá má leggja úrslit allra kosninga undir vald meiri hlutans á hverju þingi; hans liðsmenn, sem undir hefðu orðið, biðu við þingsalsdyrnar, unz meiri hlutinn hefði kosið þá. Það má vera, að gott sé að hafa einn flokk á þingi, að því er kemur til greiðra úrslita mála. En um það er eg sannfærður, að af þessari venju mundi standa margfalt meiri háski en af því, að kjörstjórnir hafi fyrsta úrskurðarvald á kosningum þingmanna.

Hitt atriðið var það, að í nefndarál. minna hlutans er sagt, eins og virðul. þingm. Dalam. hélt einnig fram, að þingið hafi úrskurðað, að síra Björn hafi hlotið meira hluta atkv. við kosninguna. Sá úrskurður hefir aldrei verið hér upp kveðinn. Þingið úrskurðaði að eins, að kosning dr. Valtýs væri ógild. En það hefir aldrei komið fram, af hverjum ástæðum kosning hans hafi ógild verið. Til þess geta verið þrjár ástæður, eða öllu heldur einhver ein af þrem ástæðum; t. d., að 1 atkv. dr. Valtýs væri ógilt; þá hefðu báðir haft jöfn atkv. Í öðru lagi gat það stafað af því, að 2 seðlar dr. Valtýs væru ógildir, en 1 seðill síra Björns; þá hefðu þeir enn jöfn atkvæði. í þriðja lagi gat það verið af Því, að fleiri seðlar dr. Valtýs væru ógildir. Af öllum þessum ástæðum er hugsanlegt, að kosning dr. Valtýs hafi verið ógild gerð, og er það ekki annara en þeirra, sem rannsaka kunna hjörtu manna og nýru, að greina frá því, hver þessara ástæðna hafi vakað fyrir hverjum einstökum þingmanni, þeirra er ógilda dæmdu kosningu hans. Það er því gersamlega rangt að segja, að þingið hafi úrskurðað, að síra Björn hafi fengið meira hluta atkvæða, af þeim sökum, að engum er unt um það að segja.

Virðul. þingm. Strandam. vildi koma praxis á um mál, er svo væri háttað sem nú er. En um praxis getur ekki verið að ræða, nema gloppa sé í lögin, en aldrei þvert ofan í lögin.

Út af því, sem virðul. framsm. minni hlutans sagði, að kjörstjórnin hefði beitt síra Björn rangindum, vil eg minna hann á það, að í kjörstjórninni átti sæti, meðal annara, Kristján læknir Kristjánsson, ákafur fylgismaður síra Björns, en hann gerði engan ágreining um gildi seðlanna og mundi hann ekki hafa samþykt kjörbréfið, nema það væri rétt.

Það geta verið skiftar skoðanir um gildi vafaseðla dr. Valtýs. Þó var eg mótfallinn því, að ógild væri gerð kosning hans, og hefi eg þó enga ástæðu til þess að hlífa honum, enda má ekki þess konar ráða um slík mál.