06.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

Lausnarbeiðni forseta sameinaðs þings

Ráðherra (Björn Jónsson):

Það sem hér liggur fyrst fyrir er að kjósa forseta í minn stað, því að eg tel embættisstöðu mína koma í bága við forsetamenskuna, og að því beri að kjósa nýjan forseta nú þegar. Eg geng út frá því sem vísu, að þm. séu mér samdóma um þetta. Hitt getur verið álitamál, hvort eg skuli stjórna fundinum, þangað til hinn nýi forseti er kosinn, eða hvort varaforseti skuli stýra kosningunni. En af því háttv. varaforseti hefir heldur haft á móti því, þá skal eg leggja það alveg á vald þingsins, hvort eg skuli stýra fundi, þangað til forseti er kjörinn, og hafi enginn neitt á móti því, álít eg óþarft að bera það undir atkv.