19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Lárus H. Bjarnason:

Það hafa fallið mörg merkileg orð síðan eg settist niður, en mest undrar mig ræða hæstv. ráðh., því að á hinu átti eg von. Raunar er það honum líkt, að taka á sig ábyrgð þessarar lausnarbeiðnar, úr því að hann átti upptökin að henni, en á hinu átti eg ekki von, að hann færi að ögra deildinni með þingfrestun og kostnaðarauka, ef lausnin ekki fengist. Og sízt af öllu bjóst eg við, að hann færi að dreifa h. hátign konunginum við þetta mál. Eg vissi, að hæstv. ráðh. vildi ekki verða við tilmælum meirihl. um að leggja til við konung að fresta þingi, meðan á forsetaförinni stæði, og hélt að hann hefði svo leitt meirihlutann af með því að skjóta því að honum að hann gæti reynt að fá samþykki minnihl. til forsetaskifta. En hitt datt mér, ekki í hug, að honum gæti verið kappsmál að rýra minnihlutann með því að berja þetta fram án þess að orða það við flokk sinn. Eg hélt að hann skoðaði ekki konungkjörnu þingmennina sem peð, er leika mætti fram eða aftur eftir vild. Og eg þykist vita, að hann sé frjálslyndari maður en svo.

Það nær engri átt að vitna hér í dönsku þingsköpin, þegar af þeirri ástæðu, að þau eru sett með samþykt þingsins en ekki með lögum eins og hjá oss. Þetta hefir líka meirihl. kannast við, því að annars hefðu forsetarnir ekki »sótt um leyfi« deildarinnar til að segja af sér. Og á sömu skoðun hefir hæstv. forseti verið, því að kosning forsetanna er tekin á dagskrá »ef til kemur«, þ. e. a. s. ef deildin veitir lausnina með afbrigðum frá þingsköpunum. Danska tilvitnanin á ekki við, og eg vil ekki innleiða þá venju, að tyggja alt upp á dönsku.

Háttv. þm. Ísf. játti því, að kosningarnar 10. sept. hefðu að eins snúist um eitt mál og hafði þar rétt eftir mér og er það góðra gjalda vert af honum. Hitt er ekki að marka, þótt háttv. þm. G. K. hafi jafnframt sambandsmálinu lagt áherzlu á einhver önnur mál suður á Nesjum. Hann hafði sagt svo margt í kosningaleiðangri sínum, sem of langt yrði að rekja hér, þó að margt hefði það verið skrítið. Annars hermdi háttv. þm. það ranglega, að eg hefði kallað það stjórnarskrárbrot að veita lausnina. Eg sagði, að það gengi nærri stjórnarskránni, að veita slíkt leyfi. Það er heldur ekki rétt, að ákvæði þingskapanna um að forsetakosning »sé fyrir allan þingtímann« þýði það eitt, að deildirnar eða þingið geti ekki sett forsetana af. Það þýðir jafnframt, að forsetarnir geti ekki sagt af sér. Og tilvitnun háttv. þm. í það, að maður, er kjörinn væri í kjörbréfanefnd, mundi ganga úr nefndinni, væri kosning hans kærð, var heldur ekki rétt. Fyrst og fremst mundi einnig þurfa leyfi þingsins til þess. Og í annan stað væri ólíkt ríkari ástæða til að veita lausn er svo á stæði, er maðurinn ella dæmdi um eigin sök, eða hér, þar sem engu slíku er til að dreifa.

Háttv. 4. kgk. gat þess, að hann vildi leyfa meirihl. að skipa meirihluta í fjárlaganefnd eftir sömu flokkshlutföllum og nú gilda, og eg er honum fyrir mitt leyti alveg samþykkur. Og eg vil bæta því við, að það er svo laust við að meirihl. þurfi að óttast ofríki af minnihl., að vér munum þvert á móti kosta kapps um að sýna alla lipurð og sanngirni. Eg skal ekki deila frekara um það, hvort hér þurfi afbrigði frá þingsköpunum, því að þar er háttv. forseti góður dómari, en þó hygg eg að það mál sé ekki hægt að dæma nema á einn veg.

Háttv. þm. Ísf. sagði, að meirihl. bæri að hafa meirihluta í báðum deildum, og má það rétt vera, en eins og eg hefi þegar sýnt og sannað, þá er það þeirra eigin sök, ef raunin verður önnur. Háttv. þm. sagði ennfremur, að fyrv. meirihl. hefði alt af skipað öll virðingarsæti sínum flokksmönnum. En þetta er ekki satt. Magnús Andrésson var varaforseti neðri deildar bæði 1905 og 1907.

Þá sagði háttv. þingm. að sér kæmi undarlega fyrir að heyra mig segja, að í rauninni væri ekki nema eitt flokksmál hér á þingi, því að eg væri vanur að segja að meirihl. gerði þetta og þetta mál að flokksmáli. Eg sagði, að kosningarnar hefði að eins snúist um eitt mál, og það kemur ekki í bága við það, að meirihlutinn vill gjöra fleiri mál að flokksmálum. Það er sitt hvað, kjósendur og þingmenn.

Þá sagði háttv. þm. Ísf., að hingað til hefðu hinir kgk. þm. verið mestu heiðursmenn. Þar til liggja þau svör, að eg verð að meta prestsvottorð þm. á borð við önnur embættisvottorð, verð að trúa þeim þangað til »contrarium probetur« eða hið gagnstæða sannast, en úr »heiðarlegleikavottorðum« þingmannsins gjöri eg ekki mikið meira en úr dómi blinds manns um lit. Eg skoða mig sem þingmann landsins þó að eg sitji nú ekki í þjóðkjörnu sæti, og eg brúka atkvæði mitt alveg eins og eg væri þjóðkjörinn, hvort sem nokkrum þykir það leitt eða ljúft.