19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Ráðherra:

Eg skal ekki vera langorður. Eg vildi að eins mótmæla því sem háttv. 5. kgk. sagði, að eg hefði ögrað minnihlutanum með því að þinginu yrði frestað. En hitt sagði eg, og segi enn, að það er á valdi forsetanna að fresta fundum þingdeildanna hvenær sem þeir vilja, því þeir ákveða fundina. En sé fundum frestað í efri deild, gengur það líka út yfir neðri deild og alt þingið. En frestun um eina einustu viku kostar að minsta kosti 3000 kr. Eg álít ástæðulaust að fleygja þeim peningum út, einkum þar sem hér er um svo ofureinfalt mál að ræða.

Háttv. 5. kgk. sagði, að ekki mætti vitna í dönsku þingsköpin, af því að þau væru þingsamþyktir en ekki lög. En þingsamþyktir eru bindandi eins og lög, ef lagaheimild er til þeirra og þær eru í löglegu formi. Og eg get ekki betur séð en að það skifti máli, hvernig sams konar atriði eru í dönsku þingsköpunum og hvernig þau eru skilin þar. Þó í dönsku þingsköpunum sé nú, að forsetar skuli kosnir fyrir allan þingtímann, hefir verið álitið sjálfsagt, að þeir geti sagt af sér, eins og reynslan sýndi seinast þegar H. Trier sagði af sér.

Eins og háttv. 5. kgk. einnig tók fram, er það sennilegt, að undanþága frá þingsköpunum, sem ræðir um í 53. gr., eigi eingöngu við »Forretningsgangen«, dagleg þingskapaatriði, og nái ekki til þessa máls. En þetta er ekkert sérstakt málsmeðferðaratriði. Þetta samþykki má að minni hyggju gjöra með einföldum meiri hluta. Það er líka ákveðið í þingsköpunum, að kosning kjörbréfanefndar gildi fyrir allan þingtímann, en þó tel eg vafalaust að enginn mundi efa, að þingið gæti leyft manni að fara úr henni, án þess að það væri skoðað afbrigði frá þingsköpunum.

Háttv. 5. kgk. skaut því fram að lokum, að eg ætlaðist þó víst ekki til að þeir konungkjörnu væru peð. Slíkt mælskublóm tek eg mér ekki nærri; hann veit sjálfur, að þetta á sér engan stað. Hvorki hann né aðrir háttv. kgk. þm. hafa heyrt mig segja eitt orð í þá átt, að þeir ættu að fylla neinn sérstakan flokk né fylgja öðru en sinni eigin sannfæring í málunum. Eg veit ekki betur en einn þeirra sé nú utan þingflokkanna. En í þessu tilfelli stendur dálítið sérstaklega á. Við verðum að muna, að það er konungur sem hefir kvatt forsetana í burtu, og sú ráðstöfun konungs á ekki að verða til þess að raska — ekki einu sinni í bili — flokkshlutföllunum hér á þingi. Slíkt væri, eins og allir vita, svo fjarstætt vilja h. h. konungsins sem unt er. Það má ekki einu sinni geta fallið skuggi af grun um það á neinn þeirra manna, er voru í ráðum með honum um þessa ráðstöfun, að þeir hafi viljað draga taum neins þingflokks með því. Það er skylda mín að vama öllum slíkum grun, sem ella mætti ef til vill vekja hjá tortryggum lýð, og mér finst að þeir þingmenn, sem kvaddir eru til þingsetu af h. h. konunginum, ættu af öllum mætti að stuðla að því sama.