28.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

92. mál, hlunnindi bókasafna

Sigurður Stefánsson:

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, var hér á dögunum mál til meðferðar í deildinni um bókasöfnin á Ísafirði og í Stykkishólmi. Sú nefnd, sem fjallaði um málið, hefir átt fundi með sér og komið sér saman um að leggja það til, að bókasafnið á Ísafirði fái sama rétt sem hin bókasöfnin.

Eg þóttist við fyrri umræðu þessa máls færa full rök að því að bókasafn á Ísafirði ætti fylsta rétt á að fá styrk af almannafé, þar sem bókasafnið á sér miklu meiri lífsskilyrði heldur en bókasafn Vesturamtsins. Eg tók það þá fram, að um 3000 manns eiga kost á að nota safnið daglega, og umhverfis væru þéttbýl bygðarlög, sem geta notað safnið að minsta kosti vikulega. Eg tók það líka fram, hve safnið hefði vaxið fljótt, og þar með hver áhugi því væri sýndur, þar sem nú þegar eru í því um 2000 bindi, og 3000 bindi hafa verið lánuð úr því á árinu, sem leið. Eg vona að deildinni þyki þetta ekki ósanngjörn umleitan, og það því síður, sem þessi fjórðungur hefir verið afskiftur um öll mentamál.

Eg býst ekki við að þurfi frekari málalenginga, en vil aðeins leggja málið undir góðvild háttv. deildar.