26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

44. mál, skipun læknishéraða

Einar Jónsson:

Frá því þetta frv. kom hér í deildina hefi eg verið á móti því og yfir höfuð flestum frumv. af líku tagi. Hyggilegasta reglan, sem hægt væri að taka upp, hygg eg væri sú, að fara eins með erfiðustu héruðin og t. d. Öræfinga, veita þeim einhvern styrk, til þess að standast kostnað af læknishjálp.

Þessi leið finst mér ólíkt sanngjarnari og heppilegri en sú, að stofna ný embætti hvert á fætur öðru.

Ef fram kæmi till. í þessa átt, þá mundi eg greiða henni atkvæði. En þessum nýju embætta-stofnunum er eg gersamlega mótfallinn; tel þá stefnu bæði óheppilega og jafnframt skaðlega fyrir þjóð og þing í heild sinni.