30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

44. mál, skipun læknishéraða

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Áður en frv. þetta fer frá þinginu sem lög, þá verð eg að fara um það nokkrum orðum, til þess að það sjáist í þingtíðindunum, hvað háttv. meiri hluti er að gera, og hvernig hann fer með valdi sínu. Eg vil taka fram nokkur atriði, sem eg vil undirstrika.

Meiri hlutinn sýnir það áþreifanlega, með þessum læknaskipunarlögum og hinum öðrum samskonar lögum, sem þegar er búið að samþykkja, að hann vílar ekki fyrir sér, að láta kjördæmi sinna manna sitja fyrir. Þetta hefir háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) oftar en einu sinni játað, og er hann maður að betri fyrir hreinskilnina.

Eins og allir vita, þá voru samin ný læknaskipunarlög á síðasta þingi fyrir land alt, og verður því víst ekki með rökum neitað, að þau lög taka svo jafnt tillit, sem yfir höfuð er mögulegt, til alls landsins, allra landshluta. Nú raskar meiri hlutinn þessari reglu algerlega, þar sem hann stofnar 3 ný læknahéruð á einu svolitlu horni af landinu, Vestfjörðum, þar sem læknarnir voru hvað þéttast settir áður, en neitar um fjölgun lækna, þar sem ástæður eru miklu meiri, eins og eg hefi sýnt fram á hér í deildinni fyr, þegar ræða var um stofnun læknishéraðs í mínu kjördæmi. Hér kemur því fram bersýnilegt og beint misrétti, og það er hinn ráðandi meiri hluti nú, sem því beitir, vísvitandi og með opnum augum.

Með stofnun þessara nýju læknahéraða eru landssjóði gerð allþung útgjöld. Að vísu er svo fyrir mælt, að ekki skuli setja lækna í þessi héruð, og þarf því landssjóður ekki að borga launin, fyr en héruðin verða veitt. En þótt þau séu sannarlega ekki girnileg fyrir góða lækna, þessi nýstofnuðu héruð, þá er óhætt að gera ráð fyrir, að einhverjir, sem skortir atvinnu í bráð, verði til að sækja um stöðuna, auðvitað í því skyni, að ná í annað betra, þegar kostur er á. Mundi þá svo fara, að eftir lítinn tíma, eitt eða máske fáein ár, yrði héraðið aftur læknislaust, og yrðu þá nágrannalæknar auðvitað settir til að þjóna þar, og launin yrði landssjóður að greiða, en íbúar læknishéraðsins yrðu jafnfjarri læknishjálp og þeir eru nú. Afleiðingin engin önnur en sú, að landssjóður yrði að greiða svo þúsundum skifti árlega síðan. Og það eru mennirnir sem hæst og mest hafa talað um sparnaðinn á þessu þingi — eg sé þá hér á báðum bekkjum, sparnaðarmennina — það eru þeir, sem setja og samþ. þessi lög.

Eg læt mína sögu þar við lenda, að eg lýsi yfir því, að löggjafarvaldið misbýður réttlætistilfinning góðra og réttsýnna manna með þessari lagasetning.