30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

44. mál, skipun læknishéraða

Skúli Thoroddsen:

Í tilefni af ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) er hann gat þess, að yrði frumv. þetta samþ., væri raskað skipun þeirri, er gerð hefði verið á læknahéruðum landsins, þá er því að svara, að eigi verður neinstaðar bætt úr læknafæð án slíkrar röskunar, en það verður þó einhverntíma að gerast, þar sem umkvartanir út af læknafæðinni berast úr eigi all-fáum héruðum, og full þörf á, að úr henni sé bætt, ekki sízt á útkjálkunum. Á þeim stað, er frumv. ræðir um, er þörfin mjög mikil, og engin hætta á því, að læknir fáist ekki, til að setjast þar að, og því rétt að fresta því eigi, að verða við óskum hlutaðeigandi héraðsbúa. — En að gera ráð fyrir því, að einhver sæki um embættið rétt í svip, í því skyni einu, að nágrannalæknir geti síðan hirt hálf launin fyrir það, að gegna því, ásamt eigin embætti sínu, svo sem mér skildist hinn háttv. þm. gera ráð fyrir, virðist mér fjarstæða.

En fyrir meiri hluta þingsins vakir að bæta úr læknaþörfinni smátt og smátt, þannig að fyrst sé bætt þar úr þörfinni, er skórinn þrengir mest að, því að hitt teljum vér landssjóði um megn, að auka við 10—12 læknahéruðum í einu, og fæ eg eigi séð, að í þessu þurfi að felast misrétti, sem neinu verulegu skiftir.

Háttv. sami þm. sagði, að meiri hluti þingsins vildi láta sín kjördæmi sitja fyrir, og er það hverju orði sannara, að hann hagar svo til að þessu sinni, og sér háttv. minni hluti sig þá sem í spegli, því að eigi er honum ókunnugt um, hversu hann hagaði sér, meðan hann hafði völdin. En því er svo farið, að menn sjá oft bezt sína eigin breytni, er þeir sjá samskonar illa breytni annara, því að það sem miður fer í fari náungans hafa allir mjög glögt auga fyrir, þótt illa gangi, að sjá, hvað að er hjá sjálfum sér, Þyki hv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) þessi aðferð meiri hlutans á þingi ekki falleg, en bera vott um yfirgang, þá er honum og ljóst orðið, hversu gerðum hans eigin flokks var varið, er hann lét matar-pólitíkina setjast í hásætið og ráða sínum aðgerðum. En eiga þeir, sem beita illum vopnum að gera þá kröfu til annara, að þeir láti þeim haldast alt uppi, og kynoki sér við að taka þá sömu tökum, sem þeir beita aðra, svo að þeir fái einir öllu ráðið? Núverandi minni hluta var þráfaldlega bent á, hve óheppileg aðferð hans væri, er hann gerði »matar-pólitíkina« að stefnu sinni; en slíkar fortölur þýddu alls ekkert. — Nú sér hann betur, hvað hann aðhafðist, þegar hann finnur sig beittan vera sínum eigin vopnum, sem er fyllilega heimilt, fyrst hann fór svo á undan, sem hann gerði.