30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

44. mál, skipun læknishéraða

Jón Jónsson (S.-M.):

Á síðasta þingi, þegar læknaskipunarmálið var leitt til lykta, var það gert með samkomulagi flestallra þingmanna, og var als ekki flokksmál. Ummæli háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um hlutdrægni fyrv. stjórnar og meiri hluta í þessu máli, eru því algerlega ástæðulaus og röng.

Háttv. þm. segir fyrir hönd síns flokks að það sé tilætlun þeirra, að fjölga læknahéruðum smátt og smátt, líklega þangað til allir eru orðnir ánægðir. Þetta er nú gott að heyra og vonandi komast þá aðrir að en Vestfirðingar, því að varla mun þurfa að lappa upp á læknaskipunina þar fyrst um sinn, þar sem nú eiga að vera 12 — tólf—embættislæknar á því horni landsins, sem ekki er stærra en sumar einstakar sýslur. Hann kannast við það, eins og hans var von og vísa, að meiri hl. láti það ráða úrslitum hér, að það eru hans fylgismenn, sem búa á þessum svæðum, þar sem nú á að setja nýju læknana. — Eg sé nú, mér til sorgar, að eg hefi brugðist mönnum í mínu kjördæmi óvitandi. Í Norðfirði og Mjóafirði, þar sem óskað var eftir að fá lækni, búa yfirleitt fylgismenn núverandi meiri hluta og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.).

Hefði eg gætt þess í tíma að láta h. þm. vita þetta, þá hefði Norðfjarðarhérað víst ekki verið felt um daginn, heldur sjálfsagt samþ. með fögnuði, þar sem allir vissu og enginn þorði eiginlega að neita, að þar var ástæðan langmest til að stofna nýtt læknishérað.

Háttv. þm. sagði, að við, sem að undanförnu höfum haft meiri hluta á þingi, hefðum gott af að sjá okkur í spegli og að við hefðum brúkað þessa sömu aðferð, sem nú er verið að beita. Hann kallar það »matarpólitík«. Eg mótmæli þessum áburði og skora á þingmanninn að koma með dæmi. Geti hann það ekki og það er víst, að hann getur það ekki, þá hefir hann farið hér með dylgjur og ósannindi.

Það tók einhver þm. fram í áðan og vefengdi, að það væri rétt, að 12 yrðu nú embætttislæknar á horninu því, er Gilsfjörður og Bitrufjörður takmarka. En þetta er rétt og skal eg leyfa mér að telja héruðin upp til sönnunar mínu máli. Þau eru þessi:

1. Reykhóla.

2. Flateyjar.

3. Patreksfjarðar.

4. Bíldudals.

5. Þingeyrar.

6. Flateyrar, nýstofnað.

7. Ísafjarðar.

8. Nauteyrar, nýstofnað.

9. Hesteyrar.

10. Reykjarfjarðar, nýstofnað.

11. Stranda.

Þannig verða læknahéruðin 11. En þar sem 2 læknar eru í einu þeirra, Ísafjarðarhéraði, þá eru læknarnir 12, eins og eg hefi sagt. Og nú bið eg þm. og aðra að líta á uppdrátt Íslands og taka eftir því, hve stór hluti alls landsins það er sem á að hafa þessa 12 lækna, og skera svo úr, hvort eg hafi flutt rétt mál eða rangt, þegar eg talaði um að misboðið væri réttlætistilfinningu sanngjarnra manna.