30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

44. mál, skipun læknishéraða

Bjarni Jónsson:

Mér væri forvitni á að vita, hversu lengi formaður minni hlutans ætlar að níðast á þolinmæði manna hér í deildinni og bera brigsl á oss meiri hlutamenn og undirstrika palladóma um oss og »slá þeim föstum«, Er það ærinn óþarfi að hefja nú þegar kosningaræður hér í þingsalnum. Vil eg ekki þola að mér sé um það brugðið að eg greiði atkv. gegn sannfæringu minni af fylgi við einstaka menn og hygg eg að aðrir flokksbræður mínir muni vilja hafa sömu orð hér um, því að slík brigsl eru óþolandi (Jón Ólafsson og Hannes Hafstein: En þau eru sönn, og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir lýst því yfir). Það er ónýtisverk að reyna að telja mönnum trú um slíkt, og þótt þeir klifi á því eins og fuglar í bjargi, þá trúir þeim enginn, því að þeir fara með ósatt mál. Lýsi eg yfir því, að eg vil ekki þola mönnum slíkar getsakir.