30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

44. mál, skipun læknishéraða

Hannes Hafstein:

Mér kemur það ekki á óvart, þótt hinn háttv. þm. játi ekki, að hann hafi farið með ósannindi, en það eitt ætti þó að vera næg sönnun fyrir því að svo hafi verið, að hann gat ekki komið með eitt einasta dæmi, er þess var krafist. (Skúli Thoroddsen: Þm. á ekki að skrökva).

Þar sem hinn háttv. þm. (Sk. Th.) kom fram með það sem sönnun fyrir ummælum sínum um, að vér, meiri hlutinn sem áður var, hefðum ausið peningum í þau kjördæmi, er vér hefðum getað vænst stuðnings af, að Ísafjarðarsýslu hefði verið skift í 2 kjördæmi árið 1902, þá sýnir einmitt þetta dæmi af hans hálfu, hve gersneyddur hann er öllum sönnunargögnum, því þetta atriði getur ekki á neinn hátt komið þessu máli við.

Eða hvernig getur hann talið það með hlutdrægnislegum peningaaustri, að meiri hlutinn verður við samhuga, endurteknum óskum sýslunefndar og fjölmennra þingmálafunda um það, að gera kjósendum í Vestur-Ísafjarðarsýslu hægra fyrir að neyta kosningarréttar síns, með því að skipta hinu forna Ísafjarðarkjördæmi í tvent, svo að þeir þyrftu ekki að sækja kjörfund yfir fjöll og firnindi, því eins og kunnugt er, var þá ekki komin á hreppakosning, enda einnig áhugamál fyrir Vestur-Ísfirðinga að fá sinn eigin þingmann. Eg sé ekki, að þetta geti átt neitt skylt við það, sem um er að ræða, það er alveg sitthvað, hér var ekki um framlög af landssjóði að ræða.

Mér fellur illa að heyra háttv. þm. (Sk. Th.) stöðugt vera að blanda þessum flokkakrit og flokkagetsökum inn í mál, sem alveg ættu að vera laus við alla flokkspólitík. Það er furða að maður, sem hefir eins góða greind og eins margt til síns ágætis eins og háttv. þm., skuli ekki sjá, hvað þetta er smekklaust, að vera alstaðar og í hvívetna að skírskota að eins til flokkshagsmunanna, eins og það væri sjálfsögð sök, að allir hagsmunir lands og lýðs ættu að vera undir því komnir, hvað þessi og þessi þingklíka álítur sér sjálfri haganlegast og vænlegast til fylgis. Sér hann ekki, að ef hann hefir slíkar skoðanir, þá ætti hann fyrir velsæmis sakir helzt að þegja yfir því.

Annars þarf hann ekki að blygðast sín fyrir, að hafa veitt þessum kjördæmum fylgi sitt í þessu máli, það er ekki nema eðlilegt, því það er margt sem mælir með því, að bæði Flateyrarhérað og Nauteyrarhérað verði stofnað nú þegar; eg hefði fyrir mitt leyti einnig getað stutt það mál, ef eg hefði ekki litið svo á, að það væri ótímabært nú, að fara að grauta í gerðum síðasta þings í læknaskipunarmálinu, og ójöfnuður, að taka einstök héruð, nema öllum væri gert jafnhátt undir höfði, þar sem þörfin er mest.