30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

44. mál, skipun læknishéraða

Einar Jónsson:

Það er ekki af því, að eg sé stofnun nýrra læknishéraða mótfallinn í sjálfu sér, að eg get ekki fallist á þessa héraðaskipun, heldur af hinu, að eg sé fram á, að hér er um misrétti að ræða.

Það hafa komið fram fleiri óskir í líka átt, engu síður réttmætar en þessi, en þeim hefir þó verið neitað. Og eg er þess fullviss, þrátt fyrir fagurmæli hins háttv. meiri hluta um, að hér hafi engin hlutdrægni átt sér stað, að þetta hefir þó orðið að flokksmáli — sem margt annað. Vil eg þar til nefna beiðnir Strandasýslu og Rangárvallasýslu. Önnur fær það, sem hinni er neitað um, þótt um sama sé að ræða.

Eg lít nú svo á, að mest þörf sé á nýjum læknishéruðum í Nauteyrar- og Norðfjarðar-héraði. Það hefði því verið sanngjarnt, ef 2 slík héruð væri stofnuð á annað borð, að einmitt þessi sæti fyrir, enda þótt annað þeirra teljist til minni hlutans. Þeir sem greiddu öðru þessu máli atkv. sitt, hefðu einnig átt að greiða hinu.

En oft á þessu þingi hefir það komið í ljós, að hallast hefir verið á minni hlutann, enda þótt áhugamál hans hafi verið jafnréttmæt og hinna.

Það er í rauninni ekki nema rétt, að meiri hlutinn fái sínum áhugamálum framgengt, ef þau eru þarfari en hin, er minni hlutinn ber fram. En þegar hinum háttv. meiri hluta farast þannig orð, þykist ekki vilja heyra getsakir og því um líkt, þar sem hann veit þó að mönnum er vel kunnugt um, að hann hefir ósleitilega dregið taum síns flokks, — þegar svona er talað, segi eg, þá er ekki að undra, þótt mönnum þyki nóg um.

Þarf ekki annað en minna hér á Vestmanneyjasímann og Siglufjarðarsímann; það er víst ekki með sanngirni hægt að neita því, að Vestmanneyjasíminn sé eins þarflegur og hinn.

Líkur yrði samanburðurinn á Rangárbrúnni og brúnni á Norðurá í Borgarfirði. Eg þekki auðvitað vel, hvernig tilhagar, að því er til Rangárbrúarinnar kemur og hefi áður talað um það mál, en þeir sem kunnugir eru Norðurárbrúarmálinu hafa fullyrt, margir hverjir, að miklu minni þörf væri á henni. (Forseti (H. Þ.): Rangárbrúin liggur ekki fyrir hér). Eg hefi jafnan rétt og aðrir til að tala um það, sem menn hafa nú verið að tala um. (Forseti (H. Þ.): Þm. hafa ekki leyfi til að karpa við forseta, þeir verða að hlíta úrskurði hans, ella mega þeir búast við, að tekið verði af þeim orðið). Ef háttv. forseti (H. Þ.) vill ekki leyfa mér að tala lengur, þá skal eg hlíta þeim úrskurði. Hitt leyfi eg mér að segja, að háttv. forseti áminnir hér of seint, því tveir vinir hans voru á þessum sama fundi að tala einmitt um þetta sama og eg var hér kominn út í.

Um læknahéruðin hefi eg ekki fleira að segja — býst við að fá tækifæri síðar að taka til máls, ef eg finn ástæðu til, og verð þá væntanlega ekki búinn að gleyma háttv. meiri hl. þingsins.