15.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

144. mál, skipun læknishéraða Norðfjarðarhérað

Flutningsmaður (Jón Jónsson, 1. þm. S.-Múl.):

Þetta frumv. er fram komið fyrir ítrekaðar óskir þeirra manna, sem hlut eiga að máli. — Árið 1907 kom til þingsins ósk um sama efni, og fylgdu henni ýms skjöl og skýringar, sem eg hefi ekki við hendina nú. Að eins skal eg benda á það, að ef þingið felst á að fjölga læknaembættum, þá verð eg að álíta, og eg vona að fleiri háttv. þm. sanni það með mér, að það sé hvergi meiri þörf á að bæta lækni við, en á þessum stöðum, sem frumv. fer fram á. —

Læknishérað það, sem hér er farið fram á að stofna er ekki sérlega stórt, tekur að eins yfir 2 hreppa, Norðfjarðarhrepp og Mjóafjarðarhrepp, sem tilheyra tveim læknishéruðum. Norðfjörður tilheyrir Eskifjarðarhéraði, en Mjóifjörður Seyðisfjarðarhéraði. Óskirnar um sérstakan lækni hafa einkum komið frá Norðfirðingum; en þar sem svo er ástatt, að læknirinn að sjálfsögðu setst að á Norðfirði, þá er það og til mikils hagræðis fyrir Mjófirðinga, því að miklu hægra er fyrir þá að sækja lækni til Norðfjarðar heldur en til Seyðisfjarðar. Býst eg við, að ýmsir háttv. þm. þekki svo vel til staðhátta þar um slóðir, að þeir kannist við, að þetta er rétt álitið.

Á almennum sveitafundi í Norðfirði var kosin 3 manna framkvæmdarnefnd til þess að hrinda þessu máli áfram. Þeir menn, er í nefndina voru kosnir, hafa sent til þingsins álitsskjal og jafnframt óskað þess, að málið yrði borið upp á þinginu. og vil eg því með leyfi forseta skýra stuttlega frá því, er álitsskjal nefndarinnar skýrir frá í þessu efni. —

Fyrst geta þeir þess, að í Norðfirði séu nú orðnir 752 manna heimilisfastir, og fari árlega vaxandi. Auk hinna búsettu manna eru þar á hverju ári um sumartímann og stundum langt fram á haust, 3—400 kaupafólks, menn og konur. Auk þessa eru ennfremur 3 hvalveiðastöðvar á þessu svæði, og á þeim öllum til samans vinna, að minsta kosti að sumrinu til, 5—600 manns, en í Mjóafirði er nú um 500 manns. Eg fæ nú ekki betur séð, en að full ástæða sé til, að synja ekki um sérstakan lækni á þessu svæði, einkum þegar tekið er tillit til þess, að mest af þessu fólki er saman komið á litlu svæði. Aðalorsökin til þess, að þeir biðja um lækni hjá sér, er þó sú, hversu erfitt er að ná í lækni eins og nú er. Til Eskifjarðar er um langan og mjög torsóttan fjallveg að fara. Nefndin skýrir frá því, að aldrei sé lagt upp að sækja lækni með minna en 2 menn, og að ferðin taki ávalt 2 daga, þótt góðviðri sé. En hitt kemur þráfaldlega fyrir, að veður og færð hamla ferðum, og stundum alófært að komast á milli fjarðanna. Ætti að eiga undir sjó, þá er það fyrst og fremst mjög löng leið, og sá annmarki á, að fara verður út á haf, út fyrir Gerpir, og verður því mikið af leiðinni út á opnu hafi. Þetta er aðalástæðan, og vona eg að þm. játi það með mér, að það er ekki að ástæðulausu, að menn þessir fara fram á það, að fá sérstakan lækni. Hið sama mætti segja um Mjóafjörð; því þótt ekki sé eins erfitt að ná í lækni þaðan til Seyðisfjarðar, þá er það þó miklu hægra til Norðfjarðar. — Því þótt ekki sé hægt að segja, að sjóleiðin frá Mjóafirði til Norðfjarðar sé innfjarðar, þá er hún þó innan flóa, og bæði styttri og hættuminni leið heldur en til Seyðisfjarðar. —

Í bréfi frá prestinum í Mjóafirði séra Þorsteini Halldórssyni, skrifuðu í nafni hreppsbúa, er skýrt frá því, að það sé ósk og vilji hreppsbúa að fá máli þessu framgengt. Til þingsins 1907 sendu þessar sveitir álit lækna þeirra, sem hlut eiga að máli, og lýstu þeir yfir því, að nauðsyn væri á þessu læknishéraði. Eg hefi ekki þau álitsskjöl við hendina, en sjálfsagt er hægt fyrir þá, sem kynnu að vilja kynna sér þau, að fá þau hjá landlækni. —

Eg vil biðja hina háttv. þm. að athuga það vel, hvort ekki sé öllu meiri ástæða til þess, að fjölga læknum hér eins og nokkurstaðar annarstaðar, og leyfi mér eindregið að leggja til, að nefnd verði skipuð í málið, eða því verði vísað til nefndar þeirrar, sem skipuð hefir verið til þess að athuga önnur mál um skipun læknahéraða.