19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

144. mál, skipun læknishéraða Norðfjarðarhérað

Flutningsmaður (Jón Jónsson, S.-Múl.):

Eg sé það af nefndarálitinu, að meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til að fella frumv. það, er við þingm. S.-Múl. höfum komið fram með. Hitt er ekki gott að sjá, hver afstaða þeirra tveggja nefndarmanna er, sem skrifað hafa undir nefndarálitið með fyrirvara, hvort þeir séu meiri hluta nefndarinnar ósammála um þetta atriði eða önnur. Það væri nógu fróðlegt að heyra það.

Eg þóttist hafa skýrt það í deildinni fyrir skömmu, að þegar ræða væri um fjölgun læknishéraða, að þá væri það engum vafa bundið, að hvergi mundi þörfin meiri en einmitt á þessum stað (Austfjörðum).

Annars verður ekki séð af nefndarálitinu, hvernig nefndin lítur á þetta, hún hefir gert sér hægt um hönd og mælt með einu frumv., en lagt það til að hin öll yrðu feld, án þess að færa nokkrar ástæður.

Ástæðurnar til þessa hljóta að vera þær, að hinum háttv. meiri hluta nefndarinnar mun vera með öllu ókunnugt um, hvernig til hagar á Austfjörðum; eg get ekki ímyndað mér, að nefndin hefði annars komist að þessari niðurstöðu.

Hitt hefði eg getað skilið, ef nefndin hefði lagt það til, að fella öll frumv.

Nefndin játar í nefndarálitinu að kröfurnar um aukin læknishéruð séu í alla staði hinar réttmætustu, og undir þau orð vil eg einnig skrifa, en hitt er mér ekki ljóst, hvernig krafan um nýtt læknishérað í Nauteyrarhéraði geti verið réttmætari en slíkar kröfur annarsstaðar.

Það geta allir sagt sér sjálfir, sem til þekkja, að ekki er erfiðara að vitja læknis úr Nauteyrarhéraði til Ísafjarðar, en úr Norðfirði og Mjóafirði til Sevðisfjarðar eða Eskifjarðar.

Það er kunnugt, að á Austfjörðum eru torfærir fjallgarðar, er jafnvel geta verið ófærir vikunum saman, og þá er sá kosturinn einn fyrir hendi, að fara á bátum út fyrir nesin; er það löng leið á opnu hafi og þori eg að fullyrða, að ekki getur verið erfiðara að sækja lækni inst úr Ísafjarðardjúpi.

Þess má einnig geta, að þegar Nauteyrarlæknishérað var lagt niður, þá var skipaður aðstoðarlæknir á Ísafirði, til þess að greiðara væri að ná í lækni.

Á Austfjörðum horfir alt öðru vísi við, þar er að eins einn læknir á hverjum stað — á Seyðisfirði, Eskifirði o. s. frv. Auk þess hefir héraðslæknirinn á Seyðisfirði stórt hérað umhverfis bæinn, þar sem bann verður að gegna læknisstörfum.

Eg vona, að háttv. þingdeildarmenn líti — að minsta kosti margir þeirra, líkt á þetta mál og eg hefi gert, að ef nýtt læknishérað verður stofnað á annað borð, þá sé hrein og bein ósanngirni að láta Norðfjörð og Mjóafjörð verða útundan.

Eg skyldi verða fús á að koma fram með breyt.till. við síðari meðferð þessa máls, er miðaði að því, að líku máli yrði að gegna t. d. um Norðfjarðarhérað og Nauteyrarhérað, þannig að ekki yrði þar stofnað sérstakt launað embætti fyr en sérstakur læknir væri fenginn þangað.

Að vísu gerist þessa engin þörf, með því að eflaust munu fleiri læknar verða til að sækja um Norðfjarðarhérað en Nauteyrar; í Norðfirði gæti læknirinn með litlum ferðalögum komið mörgum að liði, en gæti hins vegar naumast verið svo settur neinsstaðar í Nauteyrarhéraði, að menn hefðu hans alment not.