19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

144. mál, skipun læknishéraða Norðfjarðarhérað

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg get ekki kannast við, að það sé rétt hjá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), að nefndin hafi ekki fært ástæður fyrir áliti sínu. Hún rökstyður till. sínar, meðal annars á þann hátt, að henni virðist rétt, að bæta úr læknaþörfinni smátt og smátt, en sér ekki að það sé fært að bæta alstaðar úr henni í einu, bæði vegna læknafæðarinnar, sem og vegna þess, að fjárhagurinn leyfir það ekki.

Þm. talaði aðallega að eins um Nauteyrarlæknishérað, og ræða hans snerist meira um það, að mæla á móti því, en að mæla með og sýna fram á, að þörf væri á að stofna Norðfjarðarlæknishérað. Það leit út fyrir, að h. þm. væri mjög ant um, að fá Nauteyrarlæknishérað felt; en eg get ekki séð, að Norðfirðingar geti betur verið læknislausir, þótt Nauteyrarhérað væri felt; en þetta lýsir þeim hugsunarhætti hjá þm., sem ekki ætti að koma fram í háttv. deild.

Hvað örðugleikana snertir, þá talaði háttv. þm. um, hvað þeir væru miklir og hve mikil þörf læknis í hans kjördæmi. Persónulegan kunnugleika hefi eg eigi, að því er til hins fyrirhugaða Norðfjarðarhéraðs kemur, en maður, sem eg átti tal við um þetta fyrir skömmu, gerði ekki mjög mikið úr erfiðleikunum, og því hygg eg óhætt að fullyrða það, að læknisþörfin í Norðfjarðarhéraði þoli ekki neinn samanburð við læknisþörfina í Nauteyrarhéraði; en þrátt fyrir það, þá er mér það ekkert kappsmál að spilla fyrir Norðfjarðarhéraði; en hitt er mér kappsmál, að ekki sé beitst fyrir að mæla á móti Nauteyrarlæknishéraði, til þess að Norðfjarðarhérað verði sþ., þar sem þörfin þó er mun minni.