19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

144. mál, skipun læknishéraða Norðfjarðarhérað

Jón Magnússon:

Eg fyrir mitt leyti get lýst því yfir, að eg verð að vera á móti þessu frumv. af sömu ástæðum og eg var á móti að setja Nauteyrarlæknishérað á stofn. Eg legg bæði þessi héruð að jöfnu, hvað þörfina snertir.

Eg er kunnugur í Norðfirði, uppalinn þar; eg veit vel að þar er mjög erfitt að ná til læknis, og eg hygg mér sé óhætt að fullyrða, að í syðri hluta Norðfjarðarhrepps hafi ekki komið læknir í mörg herrans ár, hafi annars nokkurn tíma komið þangað læknir.

Það er og mjög erfitt að sækja lækni frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar hvort sem er sjóveg út fyrir Dalatanga, eða þá landveg yfir fjallið — á vetrum má einatt heita bráðófært yfir fjöllin þar.

En aftur á móti er greiður og góður sjóvegur á milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. Svo er hitt, að Nes í Norðfirði er orðið allstórt þorp, en það er vitanlegt, að læknar vilja helzt vera í þeim héruðum, þar er þeir geta setst að í mannmörgum kauptúnum. Eg hygg því að þangað mundi fást læknir mikið fyr en í Nauteyrarhérað.

Það er annars leiðinlegt að sjá 5 frumv. liggja fyrir þessu þingi, sem öll ganga í þá átt að breyta læknalögum síðasta þings. Þetta er hreinasta ómynd. Frumv. þarf ekki að vera og ætti ekki að vera nema eitt og þá væri hægt að fá betra yfirlit og bera saman ástandið og sjá, hvar þörfin væri mest, auk þess sem þessi frumv.fjöldi um sama efni eyðir mjög mikið tíma þingsins.

Með þessu fyrirkomulagi verður aldrei hægt að gera sanngjarnlega upp á milli héraðanna. Ef Strandasýslu verður t. d. skift í 3 læknishéruð á þessu þingi, en Norðfjarðarhérað felt, þá er það mjög óréttlátt — eg hygg, mér sé óhætt að segja, himinhrópandi ranglæti.

Eg verð eins og eg tók fram í upphafi samt sem áður að greiða atkvæði á móti þessu frumv.

Nú sem stendur greiðir landssjóður um 70 þús. krónur á ári til embættislækna, og er það meiri upphæð á mann, en nokkur þjóð önnur í heiminum greiðir í þessu skyni. Eg álít, að vér höfum ekki ráð til þess að greiða meira, meðan efnahagurinn stendur ekki betur en nú. Því verð eg að vera á móti því að fjölga læknishéruðum. Hitt er auðvitað, að vel getur verið, að skifta megi einhvern veginn sumum héruðunum öðru vísi, þannig, að tekið verði tillit til réttmætra kvartana um læknisleysi.