13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

Lenging þingtímans

Ráðherra (B. J.):

Samkvæmt heimild og umboði frá Hans Hátign konunginum um að lengja þingtímann alt að 4 vikum, ef þörf gerist, lýsi eg yfir, að eg lengi þingtímann að þessu sinni til 24. þ. m. Eg býst þó varla við, að sá tími endist, með því að þingið á enn mörg mál óútkljáð og það sum mikilsverð stórmál. En mér hefir verið tjáð, að margir háttv. þingmanna eigi óhægt með að vera að heiman lengur, og því vil eg gera tilraun með að láta þessa viðbót við þingtímann endast. Auðvitað verður tíminn lengdur aftur fremur en að slíta þingi í miðjum klíðum, á meðan mikilsverðum málum er ólokið. Og eg býst naumast við að þingið fái lokið störfum sínum fyr en við mánaðamót, en eg myndi telja illa farið, ef það þyrfti að standa fram í næsta mánuð.

Eg vona að háttv. þingmenn geri sitt ítrasta til að láta þennan tíma endast, en læt þess jafnframt getið, að það verður engin fyrirstaða á að lengja hann enn, ef brýna nauðsyn ber til.

Síðar var þingtíminn enn lengdur til 8. maí.