19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg býst við að það þyki viðkunnanlegra, að framsögumaðurinn segi nokkur orð um breytingartillögur þær, er fram hafa komið frá öðrum en nefndinni, en stuttorður skal eg vera. Vík eg þá fyrst að breytingartillögu háttv. 3. kgk. þm á þgskj. 493, um 2700 kr. fjárveiting handa verkfræðingi til mælinga viðvíkjandi þessari margumtöluðu járnbraut austur. Nefndin er tillögu þessari mótfallin, því að hún fær ekki séð, að hér sé um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að það geti ekki beðið öllum að skaðlausu. í mínum augum stendur þessi járnbrautarlagning í sambandi við framtíðardrauma, sem geta komið fram í ófyrirsjáanlegri framtíð, en engar líkur eru til að rætist á næstu áratugum, eg á við Flóaáveituna. Járnbrautin er mikið mannvirki — kostar að minsta kosti 700—800 þús. kr. Það fyrirtæki er svo kostnaðarsamt, að í það verður ekki ráðist, nema fjárhagur landsjóðs sé miklu betri en hann er nú, enda er mér ekki ljós sá bráði gróði, sem af þessari braut hlytist. Eg er að vísu ókunnugur á þessum stöðvum, en hefi þó farið um sveitirnar þar eystra, og skal eg kannast við að þar er graslendi mikið, en það er ekki meira en 1/50 hluti þess, sem mannshönd hefir verið lögð að. Það verður því að verða mikil breyting á atvinnubrögðum manna þar eystra, ætti járnbrautin að geta borgað sig, og að byrja á því fyrirtæki nú, væri hrein og bein fjárshagsleg vitleysa. Hvað því viðvíkur, að búið sé að vinna mikið verk, þá er það að vísu satt, en á síðasta þingi var gert ráð fyrir, að fé það, er þá var veitt, nægði til þess að ljúka að öllu leyti við rannsóknir þessar og mælingar, og þó nú farið fram á nýja fjárveiting. Maður getur því vel búist við, að til næsta þings komi ný fjárbæn af sama tagi, og svo koll af kolli. Fyrir því telur nefndin bezt að láta nú þegar staðar numið, enda verður það verk, sem þegar er unnið, ekki ónýtt, þótt neitað sé um þessa fjárveiting.

Þá er, breytingartillaga á þgskj. 494 frá háttv þm. Skagfirðinga um 400 kr. fjárveiting til greiðslu álags á Viðvíkurkirkju. Flutningsmaðurinn rakti vel og greinilega gang málsins, sem hans var von og vísa, en hann sannfærði mig ekki. Þetta er vafasamt atriði, svo vafasamt, að stjórnin hefir ekki séð sér fært að taka fjárveitinguna upp á frv. sitt. Eg álít að bezt sé að láta stjórnina skera úr hvað sé rétt í þessu máli, hún hefir miklu betri tök á að rannsaka alla málavöxtu. Verði málið fast sótt, og stjórnin telji þetta sanngirniskröfu, efast eg ekki um að hún muni fara fram á við næsta þing að veita þessa fjárupphæð, og fæ eg ekki betur séð en að málið þoli vel þessa bið.

Þá kem eg að breytingartillögunni á þgskj 496, um styrkinn til unglingaskólanna, að í stað þess sem heimtað er í frv., að sveitarfélögin leggi fram jafnmikla upphæð sem landsjóðsstyrkurinn nemur, þá verði þess að eins krafist, að þau leggi fram helming á móts við landsjóðsstyrkinn. Tillaga þessi var athuguð í, nefndinni, en þar fór engin atkvæðagreiðsla fram, svo að eg tala hér að eins fyrir mína hönd, en ekki nefndarinnar. Eg lít hér um bil sömu augum á málið sem flutningsmaður, háttv. þm. V.-Ísf. Eg lít svo á, sem þessir skólar séu þýðingarmestu liðirnir í allri okkar alþýðufræðslu. Skólafræðsla kemur unglingum að miklu meira haldi en bömum fyrir innan fermingu. Fyrir því kysi eg helzt að landsjóður að eins styrkti unglingaskólana, en léti barnaskólana bjarga sér sem bezt þeir geta.

Þá kem eg að þeirri breytingartillögu við 15. gr., sem fer fram á að veita Sighvati Borgfirðing 200 kr. styrk, til þess að hann geti kynt sér handrit á landsbókasafninu. Nefndin er þessum styrk mótfallin, eins og háttv. þm. V.-Ísf., er flytur tillöguna, er kunnugt. Maður þessi nýtur þegar styrks af opinberu fé, hann fær víst 350 kr. á ári fyrir það, að hann hefir »testamenterað« landsbókasafninu handrit sin, og sá styrkur dregur hann nokkuð, því að mér er það kunnugt, að hann gerir ekki miklar kröfur til lífsins, og þótt maður þessi sé alls góðs maklegur fyrir ritstörf sin, leggur þó nefndin til að fjárbeiðninni verði neitað að þessu sinni. Það er sagt að hér sé að eins um örlitla fjárupphæð að ræða, en sama má segja um fleira, og safnast þegar saman kemur.

Þá eru nokkrar breyt.till. frá háttv. þm. G.-K. á þgskj. 507. Sú fyrsta fer fram á að hækka styrkinn til Einars Jónssonar listamanns. Nefndin vildi láta hann halda þeim styrk, sem samþyktur var í Nd., en fella athugasemdina burtu, af því henni fanst óviðeigandi að setja honum neinar reglur um hvernig hann ætti að verja styrknum. Hins vegar er nefndin háttv. flutningsm. samdóma um það, að Einar sé áreiðanlega svo mikið listamannsefni, að vert sé að styrkja hann ríflega. Að vísu er eg ekki fær um að dæma um listaverk, en þó verð eg að segja, að mér finst verk Einars hafa mikið til síns ágætis, einkum lýsir sér í þeim þjóðleg stefna sem eg kann vel við. Um framtíð hans sem listamanns er auðvitað ekkert hægt að segja. En það á bæði við listamenn og skáld, að viðurkenningin getur komið þegar minst vonum varir. — 2. breyt.till. á þgskj. 507 fer fram á 500 kr. árlegan styrk til síra Einars Þórðarsonar. Eg játa það, að hann er alls góðs maklegur og á bágt núna, en eg óttast að þessi fjárveiting mundi draga þann dilk á eftir sér, að styrkbeiðnir færu að streyma inn til landsjóðs frá veikum prestum, og þann sið vil eg helzt ekki innleiða. Eg álít að síra Einar eigi þennan styrk í sjálfu sér fullkomlega skilinn, en eg vil forðast fordæmið, og get því ekki greitt honum atkvæði. — Þá er breyt.till. á sama þgskj. um að fella burtu lánsheimildina til Björgvins sýslumanns Vigfússonar. Nefndin vildi lækka lánið, en var ekki á því að fella það alveg burtu. Að því er mig snertir persónulega þá hefi eg mesta löngun til að greiða atkvæði með því að fella heimildina algjörlega burtu. Ef þetta lán væri veitt, gæti vel farið svo, að lánsbeiðnir færu að streyma inn frá öðrum sýslumönnum. Auk þess er engin trygging fyrir því, þó þessi sýslumaður byggi, að eftirkomandi hans vilji nýta húsið. Þetta hefir einmitt sést í Rangárvallasýslu. Fyrir nokkrum árum bygði þáverandi sýslumaður reisulegan bæ, en eftirkomandi hans vildi alls ekki nota hann. Það er því engin trygging fyrir því, að föstu sýslumannssetri verði komið upp þar, þó landsjóður veiti núverandi sýslumanni styrk til að byggja. Mér finst lánsheimildin því talsvert varhugaverð. Auk þess verð eg að segja, að mér finst sýslumönnum ætti ekki að vera það ofverk, með ekki verri launum en þeir hafa, að koma sér upp bústað án landsjóðslána. Þetta hafa margir bændur og prestar gert. Eg get fremur verið með lánsheimildinni til Jóhannesar Reykdals, sem farið er fram á í síðustu breyt.till. á þgskj. 507. Eg vil virða það, þegar menn sýna dugnað og fara vel með efni sin. Það hefir þessi maður gert, að því er kunnugir menn segja, og honum er nauðsyn að fá lánið til að hann geti haldið áfram atvinnu sinni. Eg mun því greiða atkvæði með þessari tillögu.

Þá er viðaukatill. á þgskj. 495 frá háttv. þm. Skagfirðinga um styrk til Hólasóknarmanna til að standast kostnað við kirkjugarðsbyggingu. Nefndin er þessum styrk meðmælt. Ástæður fyrir því þarf ekki að taka fram; það hefir flutningsm. gert vel og greinilega, og hefi eg engu við það að bæta.

Þá eru breyt.till. á þgskj. 499 frá háttv. 6. kgk. þm. Sú fyrri er við 15. gr. 28. tölul., og fer fram á 200 kr. styrk hvort árið til Leikfélags Akureyrar. Hann færði rök fyrir styrknum, og eg skal ekki mótmæla þeim, en eg vil láta hann vita það, að verði þessi styrkur samþyktur, þá dregur hann þann dilk á eftir sér, að eg sæki um sama styrk til leikfélagsins á Ísafirði. Þar er líka stór salur og leiksvið í Goodtemplarahúsinu. Það væri greinilegt óréttlæti, ef þessum tveim félögum væri gert mishátt undir höfði. Á sama þgskj. er breyt.till. við 15. gr. 38. tölul., er fer fram á styrk til grasfræðisgarðs í Reykjavík, 300 kr. hvort árið. Eg verð að segja, að eg sé hér lítinn litlafingur, sem eg er hræddur um að með tímanum geti orðið að ákaflega þurftarfrekum skrokk. Styrkurinn er að vísu ekki hár, en hann getur hækkað mjög. Eftir nokkur ár verður hann ekki 300 kr., heldur 3000 kr. Hins vegar játa eg, að slíkar stofnanir hafa vísindalega þýðingu, og þær eru til í öðrum löndum, en þar kosta þær líka of fjár. Mér dettur í hug í þessu sambandi styrkveitingin til Helga Jónssonar til mýra- og grasfræðisrannsókna. í stjórnarfrv. voru honum ætlaðar 1200 kr., en Nd. hækkaði það upp í 1500 kr. Eg hefi enga skýrslu séð frá þessum manni um rannsóknir hans á síðasta fjárhagstímabili, og finst mér það þó mikilsvert, að menn sem njóta slíks styrks gefi út skýrslur um rannsóknir sínar. Það hefir t. d. Bjarni adjunkt Sæmundsson gert. Eg hefi með mestu ánægju lesið skýrslur hans um fiskirannsóknir sínar. Auk þess er þessi fjárveiting til Helga Jónssonar, að mínu áliti, ekki ein af allra nauðsynlegustu fjárveitingunum. Rannsóknir hans hafa auðvitað vísindalega þýðingu, en hins vegar enga verulega praktiska þýðingu fyrir landbúnað vorn. Mér finst það ekkert óviðeigandi, að honum sé sett það skilyrði, um leið og styrkurinn til hans er hækkaður, að hann taki að sér að sjá um þennan grasgarð hér. Hann er vel hæfur til þess og hefir áhuga á málinu. Meirihl. nefndarinnar var á móti þessum grasgarðsstyrk, og eg verð að halda afstöðu minni í því óbreyttri.

1. kgk. þm. vék að því, að hann gæti ekki verið með því að nema burtu 300 kr. launahækkunina til Hjartar Snorrasonar, sem Nd. setti inn í frumvarpið, en nefndin hér í deildinni vildi fella. Eg mintist ekkert á kennarahæfileika þessa manns; það getur verið að hann hafi þá mikla, en hitt er víst, að hæfileikar hans koma ekki skólanum að gagni, þar sem hann er hættur að kenna og hefir fengið annan mann í sinn stað til þess, og mér þykir óviðkunnanlegt að hækka laun þeirra manna, sem eru hættir að vinna. Það væri réttara að kalla þetta eftirlaun en launahækkun. Maður veit ekkert um, hvenær hann fer að kenna aftur, eða hvort hann gerir það nokkurn tíma. Eg mun greiða atkvæði móti launahækkuninni og hygg, að öll nefndin sé á sama máli og eg.

Að því er handavinnustyrkinn snertir, hefi eg engu við að bæta það sem eg sagði í dag. Eg held fast við það, að mér finst hann óþarfi. Kenslu í handavinnu geta stúlkur fengið hér á kvennaskólanum. Efnaðar stúlkur, sem vilja læra eitthvað frekar í hannyrðum, geta siglt styrklaust til Hafnar, og fátækar stúlkur hafa alls ekki þörf fyrir þessa kenslu. Þegar út í strit lífsins kemur þurfa þær á alt öðru að halda en kunnáttu í »fínum« hannyrðum.

Styrkinn til húsmæðrakenslu á Eiðum vil eg líka fella. Eg álít það eitt af verkefnum búnaðarfélaganna, að styðja að slíkri kenslu. Það er kunnugt, að Búnaðarfélag Íslands ver talsverðu fé til slíkrar kenslu, og mér finst Ræktunarfélag Norðurlands eða Búnaðarsamband Austurlands gætu látið dálítið af mörkum til umferðarkenslu í matreiðslu. Auk þess er matreiðsla kend í kvennaskólanum hér, og eg sé því ekki ástæðu til að fara að stofna skóla fyrir þessa grein víðs vegar um landið. Það virðist vera einhver áfergja í mönnum að styrkja sem flestar nýjar skólastofnanir hingað og þangað um landið, í stað þess að sjálfsagt er að leggja alt kapp á að styrkja vel og gera veglega þá skóla sem eru hér. Eg verð því að leggja eindregið á móti þessum styrk, og það jafnvel þó hann sé runninn frá hinni hávitru búnaðarskólastjórn á Eiðum. Kanske hún hafi ætlað að byggja þetta nýja skólahús fyrir húsmæðraskóla? En mér finst þingið hjálpa henni nóg með því að leggja svona mikið fé til skólabyggingarinnar, þó það fari ekki líka að leggja til þessa matreiðslu-káks.

Eg sé þá ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um breyttillögurnar. Eg er þakklátur þeim sem hafa tekið vel í tillögur nefndarinnar. Hinum, sem móti þeim hafa verið, álasa eg ekki fyrir það.

Mér er það gleðiefni að geta lýst ánægju nefndarinnar yfir því, hversu rólega og stillilega umræðurnar hafa farið fram, en auðvitað mátti fyrirfram vænta þess af þessari háttv. deild.