08.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Þinglok

forseti (Sk. Th.) frá, að útbýtt hefði verið meðal þingmanna yfirliti yfir mál þau, er verið hefðu til meðferðar á þinginu, og mælti síðan á þessa leið:

Þó að ýms þeirra mála, er alþingi hefir samþykt til fullnaðar á þessu þingi, sem nú er á enda, séu að vísu eigi þýðingarmikil, fremur en vant er að vera, þegar litið er á allan málafjöldann, sem alþingi afgreiðir, þá eru þó sum þeirra þess eðlis, að þau hljóta að hafa mikla þýðingu fyrir þjóð vora á ókomnum tímum, svo sem háskólalögin og aðflutningsbannslögin.

Bæði þessi lög munu verða þess valdandi, að alþingis 1909 verður lengi minzt, þar sem hinum fyrnefndu er ætlað að efla og glæða vísindi hjá þjóð vorri, en hinum síðarnefndu að auka siðgæði, og afstýra böli og ófarnaði, er áfengisnautninni er samfara.

En sérstaklega eru það þó ein lög, er alþingi hefir samþykt að þessu sinni, sambandslögin, er geyma munu nafn alþingis 1909 langt fram eftir öldum, þar sem það er nú í fyrsta skifti, síðan landið glataði frelsi sínu, árið 1262, að sjálfstæðiskröfur þjóðarinnar hafa komið fram í skýrri og ákveðinni mynd, í svo fullum mæli, sem nútíðarhugsjónir þjóðarinnar krefjast.

Hvað mál þetta snertir, vitum vér að vísu, að því miður verður að líkindum þröskuldur á vegi þess, er til Danmerkur kemur, en vér vonum þó, að það, að alþingi hefir nú skýrt lýst óskum og kröfum þjóðarinnar, svo sem menn telja þær réttmætar, eftir sögulegum og lagalegum rökum, og svo sem siðferðiskröfurnar, hvað sem öðru líður, ómótmælanlega sýna öllum að rétt er, leiði til góðs og hrindi málinu drjúgum áleiðis.

En þótt árangurinn af starfi þingsins í þessu máli verði lítill í bráð, þá er og líf þjóðanna langt, og í sambandsmálinu skulum vér treysta því, að sá tími komi, er hún fær þeim kröfum sínum framgengt, sem alþingi nú hefir samþykt, ef hún að eins sýnir þrek og þrautseigju.

Látum oss og alla treysta því, að jafnvel sú barátta, sem þjóðin þarf að heyja, til þess að ná takmarkinu, getur orðið og verður henni óefað til góðs, kennir henni að meta sig sjálfa, og reyna á krafta sína til allra góðra framkvæmda.

Þá stóð ráðherra (B. J.) upp og lýsti því yfir í nafni konungs, að alþingi væri slitið.

Þá stóð upp Sigurður Stefánsson, þm. Ísf., og mælti:

Lengi lifi konungur vor, Friðrik hinn áttundi,

og tóku allir alþingismenn undir það í einu hljóði.

Að því búnu var gengið af þingi.