02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Eg hefði getað fallist á breytingartillögur nefndarinnar, ef þeir háttv. þingmenn, sem mælt hafa með þeim, hefðu getað sýnt fram á það, að lögin séu of ströng án breytinganna. En lögin verða einmitt alls ekki ströng, þó að engar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Þar er ekki gert annað en banna að fara gálauslega með gróður landsins. Það dugar ekki að hafa lögin svo óákveðin, að alla vega megi brjóta þau, án þess að það komi að sök, en þannig verða þau, ef breytingartillögurnar verða samþyktar. Þá mætti rífa fjalldrapa og víði svo mikið sem hver vill, alstaðar á landinu, nema þar sem skógræktarstjóri bannar að rífa. En skógræktarstjóri getur ekki verið alstaðar, og þar sem hann kæmi ekki, gætu menn haldið áfram að eyða landið í fullri lagaheimild. Friðuðu blettirnir mundu verða æði fáir, og yfir höfuð væri landið jafn opið fyrir rifi eftir sem áður, alstaðar nema á þeim fáu blettum, þar sem skógræktarstjóri kæmi. Í stuttu máli, lögin kæmu ekki að neinu gagni nema á pappírnum, og yrðu því nær alveg þýðingarlaus. Auðvitað geng eg að því vísu, að ákvæðum laganna verði ekki fullkomlega hlýtt, þó að breytingartillögurnar verði ekki samþyktar, en þá er þó sá munurinn, að hver sem vill, hefir meðal í höndum til þess að koma þeim í ábyrgð, sem stórskemma landið með rifi, og mundu lögin þannig koma að gagni, ef frumvarpið verður samþykt óbreytt.