27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Júlíus Havsteen:

Háttv. 4. kgk. þm. gat þess, að hann hefði litlar vonir um, að þessi lög yrðu annað en pappírslög, og mintist á lögin frá 13. apríl 1894, um samþyktir til að friða skóg og mel, og lög frá 15. febr. 1895, um samþyktir til að hindra sandfok og um sandgræðslu. En þar við er að athuga, að þau lög hafa orðið þýðingarlaus vegna þess, að mönnum hefir verið í sjálfsvald sett að nota þau. Samþyktarlög blessast sjaldan vel. Þannig hafa að eins tvær samþyktir sprottið út af þessum lögum: samþykt 15. júlí 1899 fyrir Rangárvallasýslu um friðun á skógi og mel (um hindrun sandfoks og um sandgræðslu), og samþykt 24. maí 1902, um verndun og notkun skóga í Vestur-Barðastrandarsýslu, sem er álitin mjög vel samin.

Skógræktarstjórinn hefir í vetur skrifað öllum sýslunefndum um þetta mál, en það nægir ekki, og er það áríðandi að setja frekari lög í þessu efni, ef alvara á að verða úr því að koma upp skógum hér á landi. Byrjunin í þessu tilliti eru lögin frá 22. nóv. 1907, um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, og nú liggur þetta frumvarp fyrir, sem nefndin væntir að verði tekið vel, og væri mjög illa farið, ef það yrði að engu vegna mismunandi meininga manna hér í deildinni. Það er samt ekki meining mín að mæta þessum andmælum hér, heldur að fela það framsögumanni, sem hefir sérstaka þekkingu á skógarverndun; á hinn bóginn er eg vongóður um, að fullkomið samkomulag náist og að frumvarpið fái að ganga héðan til neðri deildar.