30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Ólafur Briem):

— viðvíkjandi breyt.till. þeim, sem fram hafa komið við þessa umr., skal eg taka það fram, að ein þeirra er frá nefndinni á þskj. 701, þess efnis, að skilyrði fyrir gjaldfrelsi utanþjóðkirkjumanna sé bundið við það, að framlög þau, er söfnuðurinn greiðir til prests og kirkju, nemi eigi minna en sem svarar 2 kr. fyrir hvern safnaðarlim 15 ára eða eldri. Þessi till. er fram komin út af bendingu frá 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) við 2. umr. málsins, þar sem hann gat þess, að dæmi væri til, að trúboðar fengju staðfestingu, sem forstöðumenn utanþjóðkirkjusafnaðar, er ekkert legði fram til safnaðarþarfa og væri í raun réttri enginn söfnuður nema að nafninu til.

Um breyt.till. á þskj. 707 hefir nefndin ekki haft greiðan aðgang að bera sig saman, en eftir því sem eg kemst næst, er meiri hluti nefndarinnar samþykkur fyrri málsgreininni og æskir því þess, að breyt.till. verði borin upp í tvennu lagi. Við seinni málsgreinina er nefndin aftur á móti meira hikandi. Eins og tekið var fram við 2. umr. er gjaldið í prestlaunasjóð að nokkru leyti sama og gjald í landssjóð, þar sem landssjóður ábyrgist algerlega þau útgjöld, sem prestlaunasjóðurinn á að bera.

Að veita mjög viðtækar undanþágur frá prestsgjaldinu hlýtur því að leiða til þess að útgjöld landssjóðs aukist. Sérstaklega virðist varhugavert að veita slíka undanþágu með því einu skilyrði, að hlutaðeigandi greiði árgjald til sérstaks fræðslusjóðs fátækra barna í sínum hreppi, með því að afleiðingin yrði engin önnur en sú, að þar með væru aukin útgjöld landssjóðs að sama skapi, sem létt væri undir gjaldabyrði sveitarsjóðs, sem að lögum á að leggja fram kostnað við barnafræðslu. En af þessu leiddi aftur, að eiginhagsmunahvöt gæti orðið mestu ráðandi í þessu efni.

Að því er snertir áminsta breyt.till. er það heldur ekki ljóst, hvað átt er við með »hreppi«, hvort það er að eins hreppur í sveit eða þar undir heyri líka bæjarfélag.