22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

51. mál, stofnun landsbanka

Pétur Jónsson:

Eg hefi ekki mikið út á efni þessa frv. að setja. Eg tek einungis undir með háttv. þm. Vestm. (J. M.) um það, að breyting á stjórn landsbankans ætti ekki að vera gerð á þessu þingi, get ekki séð að neina nauðsyn reki til þess.

Það er ekki svo að skilja, að það geti eigi verið all heppilegt fyrirkomulag á stjórn landsbankans, sem frumv. gerir ráð fyrir. En það er hitt: Nefndin ráðgerir þingsál. um milliþinganefnd, sem athugi bankamál landsins í heild. Enn fremur er frv. á ferðinni um að landssjóður kaupi hluti í Íslandsbanka, og tilgangur með því, að landssjóður nái áður langt líður yfirhönd á þeim banka líka. Svo gæti því farið, að það þætti rétt og tiltækilegt, að gera samlög einhverskonar með báðum bönkunum. Eg vil því, að breyting á stjórnarfyrirkomulagi bankans bíði þangað til fyrirhuguð milliþinganefnd hefir lokið starfi.

Eftir lögum Íslands banka eru bankastjórar þar eiginlega 3, og verði þeir nú 2 við landsbankann, þá hefir landið fengið 5 bankastjóra.

Verði nú fyrirkomulagi bankanna breytt getur svo farið, að þessi bankastjórafjöldi reynist óþarfur og þá er ver farið en heima setið. Stjórn landsbankans hefir hepnast svo vel hingað til, að enga brýna nauðsyn ber til þess að breyta henni nú, þegar bankinn að öðru leyti er nær óbreyttur.

Eg hefi ekki getað séð, að frumv. þetta flytji nokkur ný ráð til að bæta úr peningavandræðum landsmanna, sem þó átti að vera aðalatriðið og þá held eg það þyki út um land ekki heppilegt, ef það verða einu aðgerðir þingsins við bankann að bæta við einu hálaunuðu embætti.