24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Það hafa ekki all-fáir háttv. þm. sent mér hnútur núna upp á síðkastið. Eg vona því, að enginn lái mér, þótt eg taki til máls, eftir alt það, sem á undan er gengið. Skal eg þá fyrst víkja mér að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.). Honum hefir hraparlega glapist sýn nú, sem fyr, þegar hann var að leitast við að svara mér. Í fyrra dag leyfði hann sér að snúa út úr orðum fjárlaganefndarinnar í nefndaráliti hennar, þar sem komizt er svo að orði, að »ekkert vit sé í« að verja ákveðinni fjárupphæð til viss fyrirtækis. Það er alt annað, en að segja, að þingmenn hafi ekki vit á því, sem þeir eru að fara með, eins og þingm. hefir sagt oftar en einu sinni. Og hann hefir látið sér um munn fara, sami þingm., að menn hér á þingi töluðu eins og fávísar konur tala. — Háttv. þm. talaði í gær um landbúnaðinn, og þóttist jafnvel draga hans taum, en það hygg eg, að hafi verið meira í orði en á borði. Afsakanir hans viðvíkjandi því, að hann væri ekki andvígur landbúnaðinum, voru víst nokkurs konar Pílatusar-þvottur. Ekki dettur mér í hug, að segja, að hann hafi ekki vit á búnaðarmálum, en þó hygg eg, að hann muni öðrum hnútum kunnugri.

Honum fórust vel og viturlega orð um byggingafyrirkomulag hér á landi; talaði með réttu um kosti steinbygginganna; en honum förlaðist nokkuð sýn, er hann tók að ræða um girðingarnar og kostnaðinn við, að koma þeim upp. Það er öllum ljóst, að grjótgarðar eru mjög dýrir og standa ekki vel nema farið sé með undirstöðu þeirra niður fyrir klaka, og kosta þeir þá ekki minna en kr. 1,50 faðmurinn. Menn geta komið sér upp gaddavírsgirðingu fyrir helmingi minna verð, á miklu styttri tíma, og því finst mér þessi lánsheimild um lán til girðingarefniskaupa vera á rökum bygð.

Þá skal eg minnast á sláturfélag Suðurlands. Háttv. þm. Rvk. (J. Þ. og M. B.) segja, að með því sé verið að mynda nokkurs konar hring eða einokun 1)). En eg vil nú beina þeirri spurning til háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) hvort það hafi ekki átt skylt við hringmyndun («Monopol«) er hann var að braska i, að koma upp »Völundi«. Eg vildi vinsamlega benda þeim háttv. þm. á, hvort hann höggvi ekki nokkuð nærri sjálfum sér með því að láta sér um munn fara slík orð og hann nú hefir nýskeð mælt í minn garð og annara þeirra háttv. þm., er bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti. En sannleikurinn er nú sá, hvað sláturfélagið snertir, að það er engin einokun, og getur eftir eðli sínu ekki orðið, ef rétt er á haldið. Fyrst er þess að gæta, að Reykvíkingum stendur opinn vegur til þess, að útvega sér kjöt annarsstaðar frá, ef þeim þykir sláturfélagið dýrselt. En svo er þess í öðru lagi að gæta, að það verður í framtíðinni og á að verða, útlendi kjötmarkaðurinn, sem skapar verðið hér. Þetta vona eg, að háttv. þingm. Rvík. skilji, þegar þeir hugsa sig betur um.

Því verður eigi á móti mælt, að kaupstaðirnir byggjast mjög á landsveitunum. Í kaupstöðum, sem telja 300 íbúa eða þar yfir, búa samtals yfir 21,000 manna, með öðrum orðum fullur fjórði hluti landsmanna. Fjöldi þessara manna er fluttur ofan úr sveitunum. Þær ala upp fólkið fyrir kaupstaðina, til sjávaratvinnuvegarins, til verzlunar og til embætta. Það er kunnugt að mikill, já mestur hluti embættismanna hér á landi er alinn upp í sveit eða ættaður þaðan. Sveitirnar eru sú lífæð landsins er öll menning og dugnaður á rót sína að rekja til eða streymir frá. Ef alt þetta væri reiknað til peninga. þá myndi það nema ógrynni fjár. — Landbúnaðurinn er og verður undirstaðan undir þjóðartilverunni og í framtíðinni hyrningarsteinninn undir velmegun og þjóðþrifum þessa lands. Því hefir verið spáð, að kaupstaðirnir muni hverfa í framtíðinni í þeirri mynd, sem þeir hafa nú, og að menn fari þá að leggja meiri rækt við landið, og að þegar fram líða stundir fari svo, að menn lifi aðallega á því, er jörðin gefur af sér. Eg hygg, að sá spádómur muni rætast með tímanum, og framleiðslan í landinu aukast og margfaldast. Eg vona að allir sannir synir þessa lands, sem unna þjóð sinni og ættjörðu, vilji styðja að framförum landbúnaðarins. Sumir háttv. orðhvatir þingmenn hér í deildinni hafa haft á orði, að eg hafi talað svo mikið um mat og matarpólitík. O, jæja, eitthvað verða þeir að segja. Það er rétt, að eg hef verið á móti flestum bitlingum, sem þessir þingmenn eru að burðast með, hverju nafni sem nefnast, hvort heldur það hefir verið til skálda og listamanna, »andlegu höfðingjanna«, sem þeir svo nefna, eða til annara »ópródúktivra« hluta. En þótt svo væri, að eg hafi minst á það, er lýtur að því að hafa eitthvað í sig eða á, þá get eg ekki séð, að það sé svo ljótt í sjálfu sér. Þeir herrar háttv. þm. verða þó að játa, að fyrsta boðorðið er þó að hafa ofan í sig, og það virðist ekki síður gilda hjá þeim sjálfum, en oss hinum. Þetta vona eg að allir þeir skilji, sem ekki eru því meiri hvítvoðungar í allri »ökonómí«. Eg vil einmitt af alefli styðja allar skynsamlegar tillögur, sem miða að því að auka framleiðsluna í landinu, og rækta og klæða fósturjarðar vorrar beru bletti. Og þá vona eg að það rætist brátt, þetta sem eitt af vorum þjóðskáldum spáir, og hefir kveðið svo fagurlega um, þar sem svo er að orði komist:

Sú kemur tíð, að sárin foldar gróa,

sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,

brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,

menningin vex í lundum nýrra skóga.

Þá vil eg minnast lítið eitt á styrkinn til búnaðarfélaganna. Ráðherrann gat þess, að sú stefna og skoðun hafi verið ríkjandi á þingunum 1905 og sérstaklega 1907, að bann bæri að minka, þar sem Búnaðarfélagi Íslands árlega væri veittur hár styrkur úr landssjóði, er færi hækkandi. Eg vil ekki rengja það, að þetta kunni að hafa vakað fyrir þingmönnum, þegar það ráð var tekið, að færa niður styrkinn til búnaðarfélaganna. En eg verð þó að gera þá athugasemd, að styrknum til búnaðarfélaganna og til Landsbúnaðarfélagsins má alls ekki blanda saman. Sambandið milli þessara stofnana eða félaga er ekki svo náið, sem menn halda, nema að því leyti, sem þau vinna að liku markmiði. Styrkurinn til Landsbúnaðarfélagsins er aðallega varið til stærri almennra fyrirtækja, svo sem samgirðinga, vatnsveitinga í stærri stíl, sýninga á búfénaði o. s. frv. Styrkurinn til búnaðarfélaganna útbýtist aftur á móti meðal hinna einstöku búnaðarhreppsfélaga, eftir dagsverkatölu. Styrknum er svo aftur skift milli félagsmanna, sem eins konar verðlaunum eða styrk, sem miðar til að hvetja einstaka menn til dugnaðar í jarðræktun og öðrum landbúnaðarframförum. Eg get með ánægju viðurkent, að mikill áhugi hefir komið fram og framfarir í jarðrækt og búnaði yfir höfuð aukist mjög á síðari árum. En eg hygg þó, að ekki sé kominn tími til eða að það sé holt fyrir landbúnaðinn, að styrkur þessi eða verðlaun verði minkuð, að minsta kosti ekki að svo stöddu.

Um styrkinn til Ungmennafélags Íslands, skal eg láta mér nægja að geta þess, að eg er honum að öllu leyti meðmæltur. Styrknum til félagsins á að verja til skógræktar og líkamsíþróttar. — Hreyfing þessi, sem kend er við ungmennafélögin, er komin hingað frá Noregi, og hefir hún gert þar mikið gagn og stuðlað að þjóðþrifum í landinu. Hún hefir vakið hjá æskumönnunum frelsisást og framfaralöngun og glætt ættjarðarástina og aðrar göfgar tilfinningar í brjóstum þeirra, og það er enginn efi á, að hún mun gera sama gagn hér og fá mörgu góðu til leiðar komið. Mér finst því sjálfsagt, að styrkja þessa mjög svo lofsverðu og góðu hreyfingu.

Viðvíkjandi búnaðarskólunum get eg verið fáorður, því að eg get skrifað undir flest það, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði í sinni ágætu ræðu. En eg get ekki stilt mig um að láta í ljós, að eg á erfitt með að vera með breyt.till. háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) og þingmanna N.-Múl. um aukinn byggingarstyrk til Eiðaskóla, eins og honum nú er fyrirkomið; alt öðru máli væri að gegna, ef skólanum væri breytt í bændaskóla eða honum bætt við, svo bændaskólarnir yrðu þrír.

Þá hef eg litla viðaukatillögu á þgskj. 257, um að afborgunarfrestur á láni til tóvinnuvélanna á Reykjafossi sé framlengdur um 5 ár. Á þessu ári hefir verksmiðjan haft mikinn kostnað, komið upp raflýsingu, og ætlar sér á næsta í ári að útvega sér nýja, stóra spunavél, og auka og endurbæta iðntæki sín að ýmsu öðru leyti. Eg vona, að deildinni finnist þetta svo sanngjörn málaleitun, að hún synji þess ekki. Hér er ekki að tala um að veita neitt sérstakt lán, heldur að framlengja afborgunarfrest á eldra láni, að eins um 5 ár.

Háttv. þm. Dal (B. J.) hefir komið fram með breyt.till., þar sem hann fer fram á að feld verði burtu fjárveiting sú, sem stjórnin hefir stungið uppá í fjárlagafrumv. sínu, að varið sé til þess að rannsaka frekar en enn er orðið, og undirbúa verk það hið mikla, sem kallað er í daglegu tali Flóaáveitan. Mér hefir ekki gefist kostur á að heyra ástæðurnar fyrir þessari br,-till. eða á hve miklum röksemdum hann byggir þá till. sína, því að hann hefir ekki þorað að biðja um orðið, fyr en eg væri búinn að tala mig »dauðan«. En líklega gefst manni kostur á að heyra þær rökræður innan skams, og skal eg þá lofa honum að taka hann til bænar, þegar eg rís upp aftur við 3. umr. málsins. Eg hefi heyrt það utan að mér, að sumir fullyrði, að fyrirtæki þetta muni aldrei komast í framkvæmd. Þessir menn, sem slíkt mæla, gera sig seka í jafn vítaverðu og sá dómari, sem legði dóm á mál, áður en hann hefði rannsakað gögn málsins. Þeir vilja eyðileggja þetta mál, áður en það er rannsakað til hlítar. Þótt sumir þessara manna kunni að vera miklir andans menn, að minsta kosti að þeirra eigin dómi, þá er mér ekki kunnugt um, að þeir hafi nokkra sérþekkingu, að því er þetta fyrirtæki snertir, til þess að geta talað um það, sem óframkvæmanlegt, og það áður en þetta er athugað eða rannsakað til fullnustu. Hitt er víst, að ef verk þetta kostnaðarins vegna er framkvæmanlegt, og það er það að dómi þeirra, er bezt hafa vit á og sérþekkingu á málinu, þá er þar með stigið hið stærsta og arðvænlegasta menningarspor í ræktun landsins síðan á landnámsöld. Það er skoðun sérfræðinga í þessari grein, að Flóaáveitan verði mun ódýrari en samskonar fyrirtæki í öðrum löndum t. d. í Svíþjóð, Danmörku og Hollandi, og að það sé sjálfsagt að leggja út í það. Eg vona því að háttv. deild láti eigi standa á þessari litlu fjárveitingu, sem er á góðum rökum bygð, og nauðsynleg til frekari undirbúnings þessu verki.

Viðvíkjandi þeim ummælum h. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), að eg sé ekki sjálfum mér samkvæmur, er eg ýmist prédiki sparnað eða komi fram með tillögur um aukin útgjöld til handa landssjóði, þá skal eg geta þess, að eg hefi ekki flutt eða verið með að sþ. aðrar fjártillögur en þær, sem stuðla til að auka framleiðslu í landinu, bæta samgöngur og leiða í ljós uppgötvanir, sem geta haft mikla og góða praktiska þýðingu fyrir atvinnuvegi landsmanna. Eg hefi ekki flutt neinar tillögur um, að ausa fé til glæfrafyrirtækja, eða bitlinga til skálda, listamanna og vísinda, enda tel eg annað þarfara að gera við fé landsins en að bruðla því þannig út. Þjóðin hefir lagt áherzlu á að vel sé farið með fjárhag landsins og fundið fyrverandi stjórn til foráttu, að hún hefði verið helzt til eyðslusöm. Tel eg því illa farið, ef sá núverandi meiri hluti ætlar að fara sömu leiðina eða jafnvel að ganga lengra en hinn gerði í fjáraustri og sóunarsemi, til lítillar eða engrar nytsemdar fyrir land og lýð.