06.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

6. mál, aðflutningsgjald

Sigurður Stefánsson:

Eg skrifaði undir álit nefndarinnar með fyrirvara, ásamt öðrum nefndarmanni. En það var ekki af því, að við værum ánægðir með viðbót neðri deildar, þetta ákvæði, að lögin gildi frá 24. febr. Mér þótti það ákvæði strax varhugavert. En eg hafði ekki tíma til að athuga málið nægilega og hafði því fyrirvarann að eins til þess, að hafa vaðið fyrir neðan mig, ef mér kynni að lítast annað við betri umhugsun. — Eg felst alveg á athugasemdir hins háttv. 4. kgk. þm. við frumv. Það er óviðkunnanlegt og óheppilegt, að láta lög verka fyrir sig fram. — Eins og háttv. þingm. tók fram, er það kunnugt, að sumir kaupmenn hér í bænum hafa fengið miklar birgðir af þessum vörutegundum, sem hér er um að ræða, skömmu fyrir þann tíma, sem ætlast er til að lögin komi í gildi. Þeir fá því hlunnindi fram yfir aðra, sem ef til vill hafa pantað vörur á sama tíma, en gátu ekki fengið þær fyr en eftir 24. febr. Þeir verða svo ef til vill að liggja með vörur sínar svo og svo lengi, af því að þeir geta ekki staðið sig við að selja eins lágu verði eins og hinir, sem voru svo heppnir, að fá vörur sínar fyrir 24. febr. og sluppu þar af leiðandi við tollaukann. Það er ekki rétt af þinginu að koma af stað svona misrétti. Hins vegar er nauðsynlegt að auka tekjur landsjóðs, og væri æskilegt, að tekjuaukinn af tollhækkuninni yrði sem mestur. Þess vegna væri ef til vill réttara, að leggja tollaukann á allar birgðir manna, er lögin ganga í gildi. Þá munaði meir um tekjuaukann, og það væri líka betra að því leyti, að þá væri öllum gert jafnt undir höfði. Það væri minna út á það að setja frá formsins hlið, því að á þann hátt kæmist maður hjá því, að láta lögin gilda fyrir sig fram. — Þetta væri ef til vill betra, en þó töluvert varhugavert. Eg veit ekki hvort eg kem með breytingartillögu við frumv. í þessa átt, en áskil mér rétt til þess við 3. umr., ef mér sýnist svo við nánari umhugsun.