16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Jón Ólafsson:

Mér þótti það merkilegt við ræðu háttv. samnefndarmanns míns, er hann fór að tala um nauðsyn þess að útvega atvinnu handa fólki við vindlagerð, því eg hefi ekki orðið var við mikinn atvinnuskort. — Hinsvegar heyri eg hvarvetna og daglega kvartað um fólkseklu til þeirra starfa, sem nauðsyn er á að vinna. Og svo vil eg leyfa mér að spyrja: Hverjir eru það sem eiga að fá þessa »atvinnu«? Fáeinar stúlkur. Og hvaða atvinna er þetta? Það er atvinna, sem er hér svo illa borguð, eins og vindlagerð er illa borguð hvarvetna í heimi, að á henni getur enginn lifað. Stúlkurnar verða því að leita sér ýmislegrar aukavinnu, sem stundum er þann veg, að eg er ekki viss um, að landssjóður vilji verðlauna hana.

Er skortur á atvinnu fyrir kvenfólk? Nei, þvert á móti er hörgull á því, bæði við sjávarsíðuna og í sveitunum. Í hverjum mánuði er auglýst eftir kvenfólki bæði sumar og vetur og kaupið er hátt. Þessi ástæða háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) er því engan veginn atvinnu-ástæða, heldur að eins yfirskins-ástæða. Það liggur heldur ekki fyrir beiðni frá verkamönnum um það, að landssjóður gangist fyrir slíkri atvinnu. Það eru einungis vindlagerðarmennirnir, sem berjast fyrir þessu.

Sami háttv. þm. hélt því fram, að hagur einstaklingsins hlyti ávalt að vera hagur als landsins. Þetta er mesta fásinna, því að það er langt frá því, að hagur einstaklingsins sé æfinlega hagur landsins. Ef atvinnan er einungis til hagsmuna fyrir einn mann eða fáa menn, en til óhagnaðar fyrir fjöldann, þá er það drep fyrir þjóðfélagið. Hér er spurningin um það, hvort ala eigi hér upp óeðlilega atvinnugrein með verndartolli. Það er hið sama sem að skatta alla menn til sjávar og sveita fyrir hagsmuni fárra einstaklinga.

Eg held ekki, að það sé rétt, að vindlagerðin geti ekki þrifist við þau kjör, sem nú eru. Það voru aðrar orsakir heldur en tollurinn á vindlagerð, sem lágu til þess. Ein vindlaverksmiðja var lögð niður í Reykjavík, af því að eigandinn var að minka kostnað sinn allan í hörðu árferði, og ef til vill með fram fyrir það, að hann reiddist tolllöggjöf þingsins; svo voru ýmisleg önnur vandkvæði: skortur á hentugu húsnæði, nema á þeim stað, þar sem það olli hækkun vátryggingargjalds á öllum hinum húsum eigandans, sem eru mörg og dýr. Önnur verksmiðjan var lögð hér niður sökum þess, að hún átti að hafa tapað samkvæmt reikningi reikningshaldara; en endurskoðendur fundu að nálægt 19 þús. kr. mundu hafa runnið inn hjá honum og er mér sagt, að það standi til máls.

Þegar stöðugt er verið að kvarta yfir fólksleysi, þá er það fásinna að reyna að draga menn frá eðlilegri atvinnu til óeðlilegrar atvinnu. Þetta vona eg, að háttv. deild sjái, að frumv. fer fram á og þess vegna vona eg, að hún skeri það strax niður.