24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Jón Sigurðsson:

Frumv. þetta er ekki svo stórvægilegt, að það gerir hvorki til né frá. En vegna þess að það hefir í för með sér aukinn kostnað fyrir landssjóð, þá verð eg að fara um það nokkrum orðum. Það munu nú sumir segja, að upphæð sú, sem hér er um að ræða sé ekki svo stórvægileg, að það taki því að gera veður út af. Hins er þó að gæta, að nú er óáran í landi og óáranir verka eftir sig, svo að hætt er við að viðskiftalífið verði stirt, og þá hlýtur það að koma fram á tekjum landssjóðs, þess vegna nauðsynlegt að spara sem mest að hægt er þá útgjaldaliði, sem geta beðið, og eg álít að þetta þoli bið.

Háttv. flutnm. (J. Þ.) sagði, að fornmenjavörðurinn yrði að ferðast um landið til að safna og skrásetja fornmenjar. Eg held að þar sé ekki um auðugan garð að gresja; því að bæði hefir forngripasafnið látið safna á síðastliðnum árum og einnig einstakir menn. Einnig er þess að gæta, þegar um söfn er að ræða, að þá verður að safna með skynsemd, ekki einungis að hugsa um það að fylla húsrúmið, til að auka þrengsli, heldur að safna því, er sýnir menningarþroska og þjóðlíf vort á ýmsum tímum. Álít einnig óþarft að hafa marga gripi sömu tegundar. Mér finst að það ætti að vera regla þingsins að fara mjög varlega í fjárveitingunum, og veita ekki meira fé en það sem hægt er að komast af með til þeirra fyrirtækja, er ekki gefa neinn beinan arð; en leggja heldur ríflega til þeirra, er auka framleiðsluna. Betra að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í hann.