24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Út af skrafi hins háttvirta 2. þingm. Árn. (S. S.), detta mér í hug orð Salomons konungs, að slíkir menn tali sem fávísar konur. Hann tekur nú upp fásinnu þá, sem fyrir löngu er þjóðræmd orðin, og sögð var hér á þingi 1893, að bera ætti söfn landsins út og kveikja í þeim »fyrir fólkið«. Getur glópskan og gleiðgosaglenningurinn komist öllu lengra? Eða þá bíræfnin að tala út í það, sem menn hafa ekki vit á til neinnar hlítar? Hitt er skiljanlegra, að þingmaðurinn vilji reyna að geta sér góðan orðstír hjá kjósendum sínum með því, að láta þá sjá, að hann hafi hátt um sparnað og telji skildinga. En betra væri, að það sparnaðartal þingmannsins kæmi einhversstaðar þar niður, sem hann ber betur skyn á en hér. Hér er auk brýnnar nauðsynjar að tala um þjóðarmetnað vorn og þjóðsóma, sem hinn háttv. þingmaður virðist gera sér heldur óglögga grein fyrir. Eigum við að meta hann mjög grútarlega til skildinga?

Fyrir skömmu var þess spurt, þegar frumv. um varabiskup var til umræðu hér í deildinni, hvort við virkilega ættum að fara að launa honum. Nú vilja menn fara að loka söfnum landsins, af því að það kostar nokkra skildinga, að halda þeim opnum. En má eg spyrja: Til hvers er þá að vera að safna og búa til söfn, ef enginn — og ekki eigandinn sjálfur — á að fá að njóta þeirra? Þetta minnir mann óneitanlega eitthvað á mauramennina gömlu, sem söfnuðu tvískildingum í vetlinga, bundu vel fyrir ofan, lokuðu þá síðan niðri í kistu og létu þá liggja þar ávaxtarlausa.

Vér viljum hafa þessi söfn til þess, að þau verði þjóðinni til sóma, gagns, gleði og læringar. Og þó við séum fátækir, þá höfum við ekki leyfi til þess, að kyrkja þau né kefja, og þjóðsæmd vora megum vér ekki kaffæra í vanhugsuðum — og mér liggur við að segja spjátrungslegum — grútarskap. »Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er«.

Slíkt mál sem þetta á þingdeildin að meta als góðs athuga og álíta. — Eg legg því til, að nefnd sé skipuð í málið.