11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Einar Jónsson:

Þegar frumv. þetta kom fyrst fram, voru mjög deildar meiningar um það, og eg verð að játa, að eg stóð þá í tölu þeirra manna, sem álitu ógerlegt að auka fjárveitingar til þjóðmenjasafnsins, sumpart fyrir sparnaðar sakir, sumpart vegna þess, að brýna nauðsyn bæri eigi til. Nú hefi eg skoðað safnið og sá eg þá að um hina mestu nauðsyn er að ræða, en annars er eg á móti öllum nýjum embættum og hef því algerlega sett mig á móti 800 kr. til sérstaks aðstoðarmanns, en að hinu leytinu felt mig við litla hækkun á launum forngripasafnsvarðarins sjálfs, með því skilyrði, að hann hefði umsjón og ábyrgð safnsins að öllu leyti. Inn á það hefir háttv. frsm. gengið með mér.

Það er sómi vor og metnaður að halda þessu safni vel varðveittu, að eg nú ekki tali um þá þýðingu, sem það frá þjóðmenningarlegu sjónarmiði getur haft fyrir oss Íslendinga. Eg vona því, að hin háttv. deild hugsi sig vel um, áður en hún synji þessari fjáruppbót, eins sanngjörn og hún er. Menn sjá vonandi, hve ósanngjarnt það er, að ætlast til að nokkur nýtur maður vilji offra sér fyrir stöðu sína og hafa einar 1800 kr. að launum, og verða þó af þeim að kaupa sér aðstoð og það hér í Reykjavík.

Að komast hjá þessu með því að breyta húsrúminu álít eg heldur ekki fært, því að það mundi að eins vera hægt með ærnum kostnaði, jafn óhaganlegt og dimt sem það er, og ætti að breyta gluggum og öðru nauðsynlegu, mundi það ekki borga sig.

Vona, að deildin unni svo vel voru kæra safni, að hún vilji styrkja það með þessari fjárveitingu.