27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Umræður eru orðnar svo langar, að eg skal verða stuttorður. Eg vil að eins leyfa mér fyrir hönd nefndarinnar að svara ýmsu, sem háttv. þm. hafa sagt.

Hvað snertir ræðu háttv. 4. kgk. þm., skal eg geta þess, að mér þykir rétt að taka til greina að nokkru leyti það, sem hann hafði að athuga við 1. gr. frv. Það mætti t. d. bæta við enda greinarinnar: »nema með samþykki skógræktarstjóra eða hlutaðeigandi skógarvarðar«. Þá virðist mér að alt væri fengið fyrir háttv. þm. — Eg er honum fyllilega samdóma um, að skógviður og kjarr getur verið sem illgresi, t. d. í túnum, eins og háttv. þm. sagðist vita til. Líka getur hrís orðið illgresi í engjum manna. Þegar svo ber undir, þá er auðvitað sjálfsagt að uppræta allan kjarrgróður, og mundi vitanlega fást undanþága til slíks.

Eg ímynda mér að nefndin í heild sinni verði fús á að breyta þessu við 3. umr. málsins.

Að því er snertir ræðu háttv. 2. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu, þá skal eg geta þess, að nefndin mun alls ekki geta verið honum samdóma um það, að rétt sé að fella burtu fyrri hluta 7. gr. Það mætti þá eins fella alla greinina burtu, því að fyrri hluti hennar er nauðsynlegur vegna niðurlagsins. Um orðalagið á greininni er það að segja, að annaðhvort verður að gefa nokkuð teygjanleg orð í ákvæðinu, eða þá að banna og taka þvert fyrir alla beit á þess konar landi, sem hér ræðir um. En nefndinni hefir ekki þótt ráðlegt að ganga svo hart að. Hvað tímatakmörkin snertir, að ástæða væri til þess að sleppa þeim og að eins brýna fyrir mönnum, að kosta kapps um að beita sem minst í skóglendi, þá mun nefndin óefað vilja taka slíkt til athugunar og verða háttv. deild til vilja að því leyti. Því að í raun og veru er meiningin með þessu ákvæði sú, að verja skógana þegar snjór liggur á jörðu. Það sem þá gerir alla beit skaðlega er það, að féð étur toppana ofan af plöntunni, og þegar þeir eru farnir, er þvergirt fyrir hæðarvöxt runnans og hann verður að vaxa í aðrar áttir, svo framt sem um nokkurn vöxt er að ræða. Þegar búið er að sleppa fénu lausu á vorin, verður erfitt og enda ómögulegt að hafa nákvæmt eftirlit með því, en það mætti þó leitast við að gæta þess, að féð gengi sem minst í skógana, þegar þeir eru að laufgast.