02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Ráðherra (H. H.):

Eg þarf ekki að segja margt, því að háttv. þm. Ísf. hefir tekið fram flest sem eg vildi sagt hafa, og þakka eg honum fyrir það sem hann hefir sagt. Það mundi draga mjög úr gagnsemd laganna, ef leyft væri að halda áfram að rífa upp lyng og mosa, og hins vegar sé eg ekki, að lagt sé þungt haft á atvinnufrelsi manna með því að banna að hafa þá aðferðina við að afla sér fjalldrapa og víðis, að rífa alt upp með rótum. Það má nota axir, hnífa, klippur eða önnur verkfæri, og eru þá ræturnar eða jarðvegurinn óskaddaður. En við rifið raskast jarðvegurinn og særist, og oft er það byrjunin að flögum, sem svo blæs upp og eyðileggja út frá sér. Úr litlu rifi getur orðið afarstórt kaun, sem aldrei grær. Eg er því fyllilega samdóma háttv. þm. Ísf. og vona, að breytingartill. við l. gr., á þingskj. 67, verði feld. Ennfremur vona eg að breyt.till. við 7. gr., að sleppa orðinu »einkum« verði feld; það væri skemd á lögunum, að sleppa þessu orði á þessum stað, því að ákvæðið eins og það er er ekki of sterkt.