23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Framsögumaður (Jósef Björnsson):

Eins og háttv. deildarmenn sjá á framhaldsnefndarálitinu á þingskj. 536, hefir frumv. tekið þó nokkrum breytingum í Nd. Þessar breytingar eru þó að nokkru leyti að eins orðabreytingar; en þrjár efnisbreytingar eru aðallega orðnar á frumv., í fyrsta lagi sú, að inn í lögin er sett ákvæði sem ekki fyrirbyggir með öllu að fjalldrapi sé rifinn. Það eru með öðrum orðum tekin upp ákvæði, sem voru til umræðu og atkvæðagreiðslu hér í deildinni við 3. umræðu málsins, og þá var feld, en sem nefndin þó hafði mælt með, sökum þess að hún bjóst við því, sem nú er fram komið, nfl. að Nd. myndi samþykkja að hafa lögin ekki strangari enn svo, að gjört væri ráð fyrir að skógræktarstjóri eða skógarverðir gætu bannað að rífa fjalldrapa. Eg get sagt það, að frá mínu sjónarmiði ætti að banna alt rif, af því að eg álít það í raun og veru alveg rangt og skaðlegt, að rífa og tæta landið upp, því það gerir ekkert annað en flýta fyrir uppblæstri og eyðileggingu. En eigi að síður félst nefndin á að setja sig ekki upp á móti þessari breytingu, bæði af því, að mestur hluti hennar áleit ákvæðið fremur til bóta á frumvarpinu en skaða, og svo þykist nefndin hafa fulla ástæðu til að vona að skógræktarstjóri muni beita neitunarvaldi sínu, til þess að sjá svo um að hvergi sé rifið þar, sem það getur valdið skemdum.

Önnur breytingartillagan, sem telja má efnisbreytingu, er við 3. gr. og er þess efnis, að svæði það sem nothafi skógs er skyldur að höggva er fært niður úr 200 í 100 faðma. Þessa breytingu má telja litlu varðandi, og hefir nefndin því aðhylst hana.

3. breytingin er sú, að þar sem í 5. gr. frumv., eins og það fór héðan, var ákveðið að taka mætti til friðunar 6000 ferfaðma land, þá hefir Nd. breytt þessu í 10 dagsláttur. Um þetta aukna svæði er hið sama að segja frá hálfu nefndarinnar og hinar fyrri breytingar, að hún hefir aðhylst þær.

Að öðru leyti eru, eins og eg tók fram, breytingar Nd. að eins orðabreytingar, sem ekki raska efni frumv., og nefndin játar að á stöku stað sé bætt orðalagið á frumv. Og í heild sinni get eg lýst yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að hún leggur til að hin háttv. deild samþykki frumv. eins og það nú liggur fyrir.