23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Breytingar þær, sem Nd. hefir gert á frumv., eru þess efnis, að eg fyrir mitt leyti get ómögulega fallist á þær, og þær breyta frumv. svo að mínu áliti, að eg vil heldur að það falli, en verði að lögum í þessari mynd. Það var mikið um það rætt hér í deildinni við hina fyrri meðferð málsins, að það væri í rauninni lítil friðun á skógum, birki og kjarri, þó ekki mætti rífa nema með leyfi skógræktarstjóra, af því að um slíkt leyfi getur ekki verið að ræða nema á fáum stöðum, þar sem skógræktarstjóri þekkir sjálfur til, en alstaðar annarstaðar geta menn auðvitað rifið. Mér er t. d. kunnugt að víða við Ísafjarðardjúp var áður fjalldrapavafið, en er nú orðið autt og bert af því, að alt hefir verið rifið upp. Og svo er það sjálfsagt víða, vegna þess að skógræktarstjóri getur ekki komið nema á fáa staði og sagt til hvort rífa megi eða ekki Eg hefði kosið að skýlaust bann hefði verið lagt á alt rif, og mér blandast ekki hugur um að eins og frv. nú er orðið, er engin réttarbót í því; heldur er þvert á móti, það er nærri því að það löghelgi enn betur rif á gróðri landsins, því menn geta altaf sagt sem svo, að skógræktarstjóri hafi ekki bannað þeim að rífa, og svo rifið eftir geðþótta sínum. En með þessu frumv. hefði eg viljað finna ráð til þess, að landið væri ekki eins miskunnarlaust afklætt, eins og gert hefir verið. En eftir frumv., eins og það er nú, er nærri ætið innan handar að rífa eins og hverjum þóknast og eyðileggja þannig gróður landsins. Eg er því algjörlega á móti frumvarpinu í þessari mynd.