23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Jens Pálsson:

Eg er eins og sá sem síðast settist, að eg get ekki verið sammála háttv. Ísf. um það, að lög þessi séu gagnslaus fyrir þá breytingu sem lagt er til að gjörð sé við 1. gr. Eg get ekki annað séð, en þau verði til fullra nota fyrir þá menn, sem yfir landi hafa að ráða, til þess að þeir geti haldið því friðuðu. Það hefir sumstaðar, einkum í nánd við sjóþorp og kauptún, reynst örðugt þeim, er yfir lynglöndum áttu að ráða, að verjast því að á þau væri gengið með víðis-, fjalldrapa- og lyngrifi. En það er til bóta, að þeir menn, sem eiga slík lönd, geti skrifað skógræktarstjóra og tjáð honum hvernig á stendur, og fengið forboð hans gegn slíku háttalagi og birt það. Mundi þeim, er landið vildu friða, góð stoð í slíku lögheimiluðu banni. Eg efast um að gagnið þurfi að vera minna af þessu ákvæði, en almennu banni, því þó í almennum lögum lægi bann yfir öllu landinu um þetta, þá væri slíkt bann ekki eins áhrifamikið, og þegar um sérstök svæði er að ræða, þar sem banni er sérstaklega framfylgt. Þess vegna ég með frumv. eins og það nú liggur fyrir.