24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

15. mál, námulög

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Eg skil ekki háttv. þm. V.-Sk., nema svo sé, að hann hafi ekki kynt sér frumvarpið. Í frumvarpinu er bannað að leita að málmi í túni eða ræktuðu landi, nema með hökum, skóflum eða öðrum því líkum áhöldum, en breytingartillaga nefndarinnar gengur í þá átt, að banna slíkan gröft með öllu, nema ábúandi samþykki. Viðvíkjandi breytingartillögunni við 13. gr., tók eg það fram í framsögu minni, að ákvæðið er óþarflega rúmt nú. Eg sé enga ástæðu til að námurekandi sé alveg einráður um það, hverja lögun teigurinn fær, geti t. d. haft hann 10000 metra á lengd. Eg veit ekki betur, en að siður sé erlendis að setja ákvæði um lögun teigsins; t. d. í Klondyke hafa allir teigar sömu ákveðna breidd, en lengdin getur verið mismunandi. Breytingartillagan við 17. gr. miðar að því að gera greinina skýrari, eins og eg áður hefi getið um, en annars verður það atriði að vera samningsmál milli jarðareiganda og námurekanda. — Þá skal eg víkja lítillega að 13. gr. Nefndin skildi hana þannig, að ákvæðið um stærðina — 100,000 ? metrar — næði til allra teiga, en nú hefir mér verið bent á, að hægt væri að skilja hana á þann veg, að stærðarákvæðið tæki að eins til þeirra teiga, þar sem málmurinn liggur í lögum, en væri hann í æð, mætti hafa teiginn svo stóran, sem hlutaðeigandi óskaði. En það er auðvitað ekki meiningin, og verður því að breyta greininni við 3. umr., sé hægt að skilja hana á þann veg. Breytingartillögur nefndarinnar tel eg til svo mikilla bóta, sérstaklega að því er snertir ákvæði 13. gr., að verði þær feldar, tel eg frv. engu betra en lögin frá 1907, og væri því réttast að fella það, næðu breytingarnar ekki fram að ganga.

Skal eg svo ekki fara um þetta frekari orðum að sinni, en að eins geta þess, að nefndin mun taka 13. gr. til íhugunar áður en málið kemur til 3. umr. hér í deildinni.