20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

16. mál, aðflutningsbann

Sigurður Hjörleifsson:

Það gleður mig, að háttv. 1. kgk. þm. hafði ekki fleira að athuga við frv. Vitanlega er ekki hægt að gera lög svo úr garði að öllum líki, en vér vonum þó, að þau verði öllum til blessunar.

Hvað snertir ákvæðið um altarissakramentið, þá skal eg skýra háttv. deild frá, að þessi orð eru sett inn í frv. og orðuð í samkomulagi við biskup landsins. Eg vil auðvitað taka tillit til orða háttv. 1. kgk. þm. um þetta mál, en eg vil þó enn þá fremur taka tillit til æðsta manns kirkjunnar. Því hann hefir þó sennilega athugað þetta atriði betur en háttv. 1. kgk. þm., enda þykir mér það fullmikið sagt af honum, að verið sé að breyta trúarbrögðunum með þessu. Á hinn bóginn er líka farið eftir tillögum kaþólskra presta í frv., sem telja sér nauðsyn á víni til sakramentis síns.