20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

16. mál, aðflutningsbann

Steingrímur Jónsson:

Að mínu áliti er þetta mál eitt hið allra merkilegasta mál, sem nokkurn tíma hefir komið fyrir alþingi. Það má jafna því við stjórnarskrármálið og önnur stærstu mál þjóðarinnar. Því varð eg alveg forviða, þegar eg heyrði að það var ætlast til að það gengi gegnum deildina án þess að það væri sett í nefnd. En eg vona, að háttv. deild láti það ekki við gangast. Það hefir alt af verið álitið eitt hið þýðingarmesta atriði í framþróunarsögu hverrar þjóðar, hvar takmörkin hafa verið sett á milli löggjafarinnar annars vegar og persónulegs frelsis einstaklingsins hins vegar. Hafi löggjöfin gengið of nærri frelsi einstaklinganna, hefir það alt af haft í för með sér afturför og bölvun fyrir þjóðfélagið.

Hvað sem annars verður sagt um þetta frumvarp, þá er það víst, að þar ræðir einmitt um þessi takmörk, sem eg gat um. Og eg get bætt því við, að þetta frumvarp gengur nær frelsi einstaklinganna en nokkurt annað frv., sem fram hefir komið á löggjafarþingi þjóðarinnar. Eg tek það afdráttarlaust fram, að eg óttast það, að þetta frumvarp verði til stórtjóns og bölvunar fyrir þjóðina, ef það verður að lögum óbreytt. Því vil eg styðja tillögu háttv. 1. kgk. þm., að setja nefnd í málið.