22.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ágúst Flygenring:

Eg vildi að eins segja örfá orð út af till. á þgskj. 539 um styrk til Lárusar kennara Bjarnasonar til utanfarar. Eg skal strax taka það fram, að það er stór misskilningur hjá háttv. framsögum., að slíkar utanfarir til kennaranáms séu ónauðsynlegar, af því að við höfum kennaraskóla hér. Það væri sama sem að segja, að t. d. handverksmenn hefðu ekkert að gjöra við að sigla, af því þeir gætu lært iðn sína hér. En þetta er mesta fjarstæða. Það er vitanlegt, að það framleiðir kyrstöðu hjá hvaða manni sem er, að sjá aldrei annað en sitt eigið land. Menn þurfa, bæði kennarar og aðrir, að fara iðulega til annarra landa til að sjá hvernig þar er háttað því sem þeir leggja stund á hér; annars dofnar alt, og ekkert nýtt líf skapast. Þessi maður, sem farið er fram á styrk til, er fátækur alþýðumaður, sem hefir mentað sig algjörlega sjálfur. Hann hefir af eigin rammleik gengið í gegn um öll stig alþýðuskóla hér á landi og unnið fyrir sér meðfram á sumrin. Eg hefi talað við menn, sem eru honum nákunnugir, og þeir hafa einum munni lokið lofsorði á hann, ekki að eins fyrir mentun, gáfur og dugnað, heldur einnig fyrir prúðmensku hans, góða hegðun og þau ágætu áhrif, sem hann hefir á lærisveina sína. Eg vona, að háttv. framsögum. sé mér samdóma um það, að meiri ástæða sé til að styrkja gáfaða og duglega menn, sem von er um að mikið verði úr, en einhverja ónytjunga. Þessi maður hefir sótt um 700 kr. styrk til að ganga eitt ár á kennaraháskóla ríkisins í Höfn. Þetta er ekki stór upphæð, en þó sá Nd. sér ekki fært að veita honum hana. Það hefir líklega þótt meiri þörf á að styrkja skáld og listamenn; en það þori eg að fullyrða, að það kemur ekki að nálægt því eins miklum notum að styrkja sum skáld okkar eins og þennan mann. Eg vona að háttv. deild trúi mér til að segja satt um það, að þessi maður sé verðugur til styrksins; eg er sannfærður um það, að ef nokkur kennari úr alþýðu-flokki á skilið að fá styrk, þá á þessi það. Það væri stór misskilningur, að fleygja þessari umsókn fyrir borð, en veita aftur aðrar, sem mér liggur við að segja, að eru nærri því hneykslanlegar, sumar þeirra. — Eg skal að endingu skírskota til háttv. þm. Gullbringuog Kjósarsýslu, hvort eg hafi ekki rétt að mæla um manninn; hann þekkir hann vel.