23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

16. mál, aðflutningsbann

Lárus H. Bjarnason:

Það var farið fram á það við 1. umræðu þessa máls, að nefnd væri sett í það, en sú tillaga var feld, og vona eg að það hafi verið gert af misskilningi. En nú eru komnar fram margar og miklar breytingartillögur, og vona eg því fastlega að nefnd verði skipuð, og það því fremur, sem mér er sagt, að meiri hlutinn hér í deildinni hafi unnið að þessu máli ásamt meiri hlutanum í neðri deild, án þess minni hlutanum hafi verið gefinn kostur á að eiga þar nokkurn hlut að máli. Eg hafði gert mér töluvert far um að geta unnið að breytingartillögum með háttv. þm. Strandamanna, en það fórst fyrir eigi að síður. Hafði eg ætlað mér að bera fram 25 breyt.tillögur, sem flestar eru reyndar annaðhvort smá efnisbreytingar eða orðabreytingar, en mundu þó gera frumv. stórum aðgengilegra og gleggra en það er nú. Býst eg við að geta gefið frv. atkvæði mitt, verði því breytt á þann hátt, er eg fer fram á. Vona eg því að nefnd verði sett nú og annari umr. frestað, eða að minsta kosti að hún verði skipuð þá er málinu hefir verið vísað til 3. umræðu. En þar sem hin væntanlega nefnd mun hafa nauman tíma, vildi eg drepa örlítið á breyt.till. mínar. Fyrst skal eg þó láta þess getið, að eg tel slík bannlög alls ekki nauðsynleg. Drykkjuskapur fer stöðugt minkandi hér á landi. 1847 kom í fyrsta sinni fram uppástunga um það á alþingi, að banna innflutning áfengis, en hún var feld með öllum atkvæðum; sjálfur flutningsmaðurinn greiddi atkv. gegn henni, og þó var ofdrykkjan miklu almennari þá en hún er nú. Bannlög geta heldur ekki bætt siðferðið, því að siðferðið batnar ekki við að taka frá manni freistinguna, heldur við að styrkja viljann svo, að hann geti staðið á móti henni. En eigi að síður get eg verið með bannlögum, og kemur það af því, að við atkvæðagreiðsluna í haust tjáði meiri hluti kjósenda sig bannlögum fylgjandi, og meiri hlutinn á að ráða í þessu máli sem öðrum. Og svo er því þannig varið með þetta mál, sem önnur mál, er vér ráðum einir yfir, að það er hægurinn hjá að nema lögin úr gildi og setja brennivínstunnuna á stokkana aftur, gefist lögin illa. Að svo mæltu skal eg víkja að breyt.till. mínum.

Í 1. gr. kann eg ekki við að kalla duft og kökur, er sundur má leysa í vökva, »áfengan drykk«, en hins vegar vil eg að svo sé fyrir mælt, að með slíkt skuli fara sem áfengan drykk.

2. gr. heimilar smáskamtalæknum að flytja inn vínanda frá útlöndum til lyfjablöndunar. Þessu er eg algerlega mótfallinn, því að slík undanþága myndi verða til þess að draga mjög úr gagni laganna. Langi einhvern í sopann, þá er ekkert annað en að verða skottulæknir, því að þá getur hann flutt inn eins mikið vín og hann lystir.

Í 4. gr. er mælt svo fyrir, að umsjónarmaður áfengiskaupa skuli, þegar er áfengið kemur til hans frá útlöndum, tryggja sér með rannsókn að áfengissendingin sé eigi önnur eða meiri en um var beðið, en það vantar ákvæði um, hvað umsjónarmanni beri að gera, sé sendingin önnur eða meiri. Fyrir því legg eg til, að inn í 4. gr. sé skotið svo hljóðandi ákvæði: »Nú reynist áfengið annað eða meira en um var beðið, og skal umsjónarmaður þá endursenda það sendanda tafarlaust, annaðhvort alt, ef annað er en um var beðið, eða það sem um fram reynist, enda er skipstjóra, sem flutti, eða útgerðarmanni skips skylt að taka við því án borgunar á farmgjaldi«. Þá segir enn fremur í 4 gr., að hirði sá ekki áfengið, er pantað hefir, áður en hinn lögboðni frestur er útrunninn, og láti heldur ekki í ljósi ósk um að áfengið á hans kostnað sé endursent seljanda, þá skuli áfengið ásamt umbúðum gert upptækt og andvirðið rennur í landsjóð. En hvað þýðir það að gera upptækt? Það þýðir það, að landsjóður skuli kasta eign sinni á áfengið og selja það á opinberu uppboði, — en sé það fyrir hönd landsjóðs selt á opinberu uppboði, þá mega líka þeir sem kaupa það drekka það. En það getur ekki hafa verið meining bannmannanna, heldur hlýtur það að vera af athugaleysi, að ákvæðið er þannig orðað, og þess vegna legg eg til, að því verði breytt þannig, að áfenginu sé helt niður, eða landsjóði heimilað að gera sér mat úr því án þess að selja það til drykkjar, en ílátin séu gerð upptæk og andvirði þeirra látið renna í landsjóð.

Í 5. gr. stendur, að hafi skipstjóri meðferðis frá útlöndum áfengi, sem ekki er ætlað til skipsforða og ekki á að fara til umsjónarmanns áfengiskaupa, þá skuli lögreglustjóri á hinni fyrstu höfn, er skipið kemur á, setja embættisinnsigli sitt á hin aðfluttu áfengisílát, og á skipstjóri að ábyrgjast að ekki sé í ílátin farið fyr en skipið er alfarið frá landinu. En þetta er ekki nóg; hið opinbera verður að tryggja sér að ákvæðum þessum sé hlýtt, og vil eg því bæta við 5 gr. svohljóðandi ákvæði: »enda gangi lögreglustjóri úr skugga um það, áður en skipið heldur úr síðustu höfn, að innsigli séu heil, og að ekkert hafi verið tekið úr ílátunum«. Með því er, fullkomlega trygt, að innsiglunin komi að fullu haldi.

Í 6. gr. vil eg á 3 stöðum gjöra þá breytingu, :að áfengi skuli hella niður eða það gjört eign landsjóðs, en ílátin upptæk, í stað þess að nú er svo fyrir mælt í frumv., að áfengið með umbúðum skuli gert upptækt. Ástæðurnar til þessara breytinga eru þær sömu, sem eg tók fram viðvíkjandi sams konar breytingartillögu við 4. gr.

Í 7. gr. er bannað að flytja áfengi um landið, nema það sé merkt með innsigli umsjónarmanns áfengiskaupa eða lögreglustjóra samkvæmt 6. og 10. gr. Frá þessu banni er nauðsynlegt að veita undanþágu, að því er snertir áfengi, sem ætlað er til lækninga. Legg eg því til, að inn í greinina sé bætt: »nema læknislyf sé úr lyfjabúð eða frá lækni«.

Þá kem eg að aðalbreytingartillögunni.

Í 9. gr. segir svo: »Veitingamenn og vínsölumenn þeir, sem leyfi hafa til vínsölu hér á landi samkvæmt lögum nr. 26 11. nóv. 1899 um verzlun og veitingar áfengra drykkja, mega eftir. 1. jan. 1912 ekkert selja« o. s. frv. 2. gr. laganna frá 11, nóv. 1899 mun heimila þeim einstökum mönnum, er fengið hafa rétt til áfengisverzlunar, að halda þeirri verzlun áfram meðan þeir lifa, brjóti þeir ekki réttinn af sér. Þetta verður sérlega líklegt þegar litið er til þess, að það er tekið fram um verzlunarfélög, að þau skuli þó ekki halda réttinum nema 15 ár. Verzlunarréttur félaga er útrunninn l. jan. 1915, og þar sem þau líklega eiga rétt til skaðabóta úr landsjóði, verði þau svift vínverzlunarleyfinu áður en sá tími er á enda, þá vildi eg leggja til, að félögum þeim, er vínsöluleyfi hafa samkvæmt lögum 11. nóv. 1899, verði lofað að halda verzluninni áfram til ársloka 1914. Sé það gert, svifta lög þessi ekki aðra menn vínsölurétti en þá einstaklinga, er verzla með áfengi samkvæmt nýnefndum lögum. Að vísu mætti segja, að hvorki verzlunarfélög né einstakir vínsalar ættu heimting á skaðabótum, þó að bannlög væri samþykt; þeir mættu að eins verzla með áfengi, meðan áfengi væri lögleg verzlunarvara. En eigi félög heimtingu á skaðabótum, eiga einstakir vínsalar það líka. Um það atriði er að vísu ekki beinlínis nauðsynlegt að taka ákvæði upp í þessi lög, vínsalarnir geta snúið sér til dómstólanna, hvort sem skaðabætur eru beint leyfðar eða ekki, en heppilegra væri það þó eigi að síður, að tiltekið væri í lögum þessum eftir hvaða reglum bæturnar skyldu reiknaðar, ef til bóta kæmi. Hefir mér dottið í hug, að í því efni gætum vér tekið norsk lög til fyrirmyndar — lög frá 17. maí 1904. Eftir þeim lögum má innleysa vínsöluleyfi, og komi fult verð fyrir, eftir mati 4 matsmanna. Hér á landi hygg eg myndi nægja, að matið væri framkvæmt á vanalegan hátt af 2 dómkvöddum óvilhöllum mönnum, og að leggja mætti til grundvallar meðaltal nettó-ársteknanna 3 síðustu árin, eftir áliti matsmanna, þannig að vínsalinn fengi þá upphæð útborgaða úr landsjóði við hver árslok, meðan hann lifir. Mat þetta kæmi eðlilega þá fyrst til framkvæmda, er dómstólarnir hefðu úrskurðað að hlutaðeigandi vínsali ætti rétt til skaðabóta.

10. gr. um að lögreglustjóri skuli rannsaka þær áfengisbirgðir, sem einstakir menn kunna að hafa í vörzlum sínum 1. jan. 1912, vil eg fella burt með öllu. Rannsókn þessi er algerlega óþörf, því að hið opinbera hefir nóg önnur ráð til þess að gæta þess, að ekki sé bætt við birgðirnar með aðflutningi frá útlöndum, en hins vegar mjög óviðkunnanlegt að vera að senda lögregluna á hvert heimili alveg að óþörfu.

Þá legg eg til, að 1. liður 11. gr. falli burt. Á því ákvæði er fyrst og fremst sá galli, að »lögreglustjóra« er skipað að framkvæma heimilisrannsóknina, en samkvæmt stjórnarskránni má heimilisrannsókn að jafnaði að eins fara fram eftir dómsúrskurði, og frá þeirri reglu er engin ástæða til að víkja hér. Og í annan stað er ákvæðið óþarft með öllu, því að sé ástæða til slíkrar rannsóknar, er heimild í gildandi lögum til þess að gera hana. Enn segir í 11. gr. að komi það í ljós, að áfengi sé í vörzlum þess manns, er rannsakað er hjá, skuli hann skyldur að sýna sönnunargögn þess, hvaðan honum eru komnar birgðirnar. En vel getur það fyrir komið, að hlutaðeiganda sé ómögulegt að sýna slík sönnunargögn, og »impossibilium nulla est obligatio«. Vil eg því í stað orðanna: »sýna sönnunargögn« setja: »skýra frá«. 12. gr. fer í engu lengra en gildandi lög um réttarfar, og legg eg því til að hún falli burt. 13. gr. er óþarflega ströng að því er málskostnaðarákvæðið snertir, og legg eg til að hún falli burt. í 14. gr. er því ofaukið: »sé það af áfengi«, sem hlutaðeigandi hefir orðið ölvaður, því að menn verða ekki »ölvaðir« af öðru en áfengi. Síðari hluti 14. gr. er þegar gildandi lög hér á landi — að sektarlágmarkinu undanskildu — sem hreinasti óþarfi er að vera að taka upp í frumv. þetta, og legg eg til að hann falli burt. Í síðasta lið 15. gr. og 17. gr. vil eg að í stað þess að frumv. ákveður að áfengið skuli gert upptækt, sé svo fyrir mælt, að áfenginu skuli hella niður eða það gjört eign landsjóðs, en umbúðirnar upptækar. Ástæðurnar eru hinar sömu, sem til sams konar breytinga annarstaðar í frumv., er eg þegar hefi talað um. Eftir 16. gr. á að gjöra fjárnám »í« sektunum, á að vera »fyrir« sektunum. Í 20. gr. er það rangmæli, að með brotin skuli »að öðru leyti« fara sem almenn lögreglumál, sem mun vera sprottið af þeim misskilningi, að menn hafa haldið, að það væri réttarfarslegt atriði, hvert sektirnar rynnu — hér eiga þær að renna í landsjóð —, en svo er ekki. Með þessi brotamál verður því að öllu farið sem almenn lögreglumál, og því eiga orðin »að öðru leyti« að falla burt.

Loks verður, ef breytingartillögur mínar verða samþyktar, að taka upp í 23. gr. tilvísun til 9. gr.

Þegar eg fór af stað að heiman í morgun, voru mér afhentar breyt.till. háttv. þm. Strandamanna. Eg sé nú, að sumar þeirra fara í sömu átt og mínar breyt.till. Verði nefnd sett, sem eg vona, gætum við og nefndin brætt okkur saman um breytingartillögur hans og mínar.