23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

16. mál, aðflutningsbann

Ari Jónsson:

Vegna þess að eg hefi komið með nokkrar breyt.till. og þær eru hér til umræðu, vil eg segja nokkur orð.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er eitt af stórvægilegustu málum þessa lands. Í sumra manna augum er það stórvægilegt af því, að þeir álíta að með slíkum lögum sé bætt úr stórkostlegu þjóðarböli. Í annara augum er málið mikilvægt af því að þeir álíta, að með þessum lögum sé gengið of nærri frelsi og eignarrétti einstaklinganna. Svo ólíkar eru skoðanir manna um þetta mál, og til þess verðum við að taka tillit, þegar taka á ákvörðun í því. Það er áríðandi að sú stefna sé tekin í þessu máli, sem getur orðið til langframa. Verði sú stefna tekin, að lögleiða aðflutningsbann á áfengi til landsins, þá er það aðalatriðið að tryggja það, að bannið standi lengur en um stundarsakir. Það er því áríðandi að gera lögin að öllu leyti svo úr garði, að trygging sé fyrir því að þau geti orðið langlíf. Því þá væri verr farið en heima setið, ef lögunum væri hleypt af stokkunum svo illa úr garði gerðum, að þau yrðu numin úr gildi eftir nokkur ár. Þá væri að miklu ónýtt barátta Goodtemplara í öll þessi ár; þá yrðu þeir að byrja af nýju á öllum þeim erfiðleikum og öllu því stríði, er þeir hafa háð að undanförnu. Langlífi laganna álít eg sé bezt trygt með því, að láta ekki böndin, sem þau leggja, særa um of eða óþarflega mikið réttindi eða frelsi einstaklinganna. Með því móti er það trygt, að þau verði ekki óvinsæl og illa þokkuð af fjölda manna.

Með þetta fyrir augum, að láta lögin ekki vera um of nærgöngul við persónulegt frelsi manna og tryggja þar með langlífi þeirra, hefi eg komið með breyt.till. er fara í þá átt að gera greinarmun á aðflutningsbanni áfengis og sölubanni þess í landinu. Breyt.till. við 9. gr. fer fram á það, að vínsöluleyfið haldist þangað til 1915. Með því móti verða lögin aðgengilegri, því þá eru böndin ekki hert að mönnum alt í einu, heldur smáherðist á þeim og smádofnar undan þeim. Eg hefði, til að tryggja framtíð laganna, kosið að þjóðin fengi að greiða atkvæði um þau af nýju, en sé vínsölubanninu frestað til 1915, þá er minni þörf á nýrri atkvæðagreiðslu, því þá er áreiðanlegt að kosningar hafa farið fram til alþingis fyrir þann tíma. Önnur ástæða til þess að eg legg til, að vínsölubann sé ekki látið koma í gildi fyrr en 1915, er sú skaðabótakrafa, sem margir álíta að þeir, er vínsöluleyfi hafa til 1915, hafi rétt til að koma með, sé bannið látið koma í gildi fyrir þann tíma. Sé banninu aftur frestað til 1915, geta að eins þeir, sem söluleyfið hafa æfilangt, gert skaðabótakröfu á hendur landsjóði, en hinir, sem hafa það tímabundið, eru þá úr sögunni að því leyti. Eg er á þeirri skoðun, að ekki komi til mála annað en að þessum mönnum yrðu dæmdar skaðabætur, ef slík mál kæmu fyrir dómstólana. Hæstiréttur mundi vera síðasti »instans«, og þó ekki liggi neitt beint fordæmi fyrir frá honum, þá hefir hann þó felt úrskurð í svipuðu máli, eða máli, sem að sumu leyti hefir nokkra líkingu við þetta, sem ef til vill gæti bent til þess, að hann mundi dæma slíkum mönnum, sem sviftir væru vínsöluleyfinu, skaðabætur. Þessi úrskurður féll í máli Höepfner-ekkjunnar á Akureyri. Hæstiréttur úrskurðaði, að hún gæti erft vínsöluleyfið eftir mann sinn, þar sem hún sat í óskiftu búi, og því ætti hún heimting á skaðabótum, ef henni væri neitað um það. — Eg sé ekki betur en að lögin séu miklu aðgengilegri fyrir þjóðina, ef bannið kemur svona smátt og smátt, og þau baka henni ekki útgjöld; hvorttveggja vinst með því að fresta vínsölubanni til 1915.

Þá er annað atriði, sem mér finst of hart. Lögin verða að vera svo úr garði gerð, að ekki sé of fyrirhafnarmikið fyrir lögreglustjóra að gæta þeirra og framfylgja þeim, og ennfremur mega þau ekki ganga of nærri rétti einstaklinganna. Af þessum ástæðum hefi eg komið með breyt.till. við 10. gr. Þar er svo ákveðið, að ekki sé skylt að flytja burt úr landinu þær áfengisbirgðir, sem einstakir menn kunna að í hafa í vörzlum sínum 1. jan. 1912, en eigendurnir skulu skyldir til að segja tafarlaust hlutaðeigandi lögreglustjórum til þeirra, og eiga þeir svo (lögreglustj. eða umboðsmenn þeirra) að rannsaka þær þá þegar og semja skýrslu yfir þær, og endurtaka síðan þessa rannsókn á 6 mánaða fresti, meðan nokkrar áfengisbirgðir eru til. Eg hefi það á móti þessu ákvæði, að það leggur óþarfa fyrirhöfn á herðar lögreglustjóra eða umboðsmanns hans, ferðalög o. s. frv., því vafalaust verða þeir menn margir, sem vín hafa í vörzlum sínum 1. jan. 1912, ennfremur að það gengur of nærri heimilisfriði einstakra manna, og að afar-auðvelt verður að fara kringum það með því að leyna nokkru af birgðunum í fyrsta sinni sem rannsókn er gjörð. Eg hefi því komið með þá breyt.till., að í stað rannsóknarinnar komi vottorð frá eigendunum, að viðlögðum drengskap, um það, hverjar og hve miklar birgðir þeir hafi er lögin ganga í gildi, og svo sams konar vottorð á ársfresti upp frá því, þar til birgðirnar eru þrotnar. Eg lít svo á, að sé einhver maður svo gerður að hann vilji falsa vottorð, þá sé honum enn miklu fremur trúandi til að leyna af birgðunum.

Þá finst mér og ákvæði 11. gr. vera of hörð gagnvart einstaklingunum. Þar er ákveðið að heimilisrannsókn skuli gera hjá hverjum sem grunaður er um óleyfilegan aðflutning eða sölu áfengis. Því vil eg breyta þannig, að rannsóknina megi gera, og að eins eftir dómsúrskurði. Ennfremur heimtar greinin að sá, sem vín finst hjá, skuli skyldur að sýna sönnunargögn þess, hvernig standi á birgðunum. Þessi krafa finst mér fram úr öllu hófi ströng og óhafandi, og vil eg gera þá breytingu, að maðurinn skuli að eins skýra frá, hvernig á birgðunum standi.

13. gr. vil eg fella burtu. Hún inniheldur það ákvæði, að sá sem dæmdur er sekur um brot á ákvæðum laganna, skuli auk lögboðins málskostnaðar greiða kæranda og vitnum allan þann kostnað er þau hafa af málinu. Það að vitni fái borgun er nýmæli, því vitnaskylda er lögleidd hér, og menn verða að bera vitni án nokkurrar borgunar. Og það er í mínum augum hættulegt nýmæli, sem mætti misbrúka. Því þó ef til vill sé ekki hægt að segja að mútum verði komið við beinlínis, ef byrjað er að borga vitnum fyrir að mæta fyrir rétti, þá gæti þó nokkuð svipað mútum komið fram. En þó keyrir fram úr öllu hófi ef á að lögleiða það, að kærandi fái allan kostnað greiddan. Það gæti orðið til þess, að menn færu að »spekúlera« í þessu, að gera það að atvinnu sinni að kæra menn.

Í 14. gr. er ákveðið, að óhlýðnist maður, er sést hefir ölvaður, að mæta fyrir dómara eða svara spurningum dómara, þá skuli honum haldið til hlýðni með eigi minni sektum en 10 kr. í hvert skifti. Nýmælið er hér að eins 10 kr. lágmarkið, og vil eg gera þá viðbót, að sama lágmark sektar sé lögleitt að því er vitnin snertir. .

Þá er breyt.till. við 15. gr. Þar er lágmark sekta fyrir óleyfilegan innflutning áfengis ákveðið 200 kr. Það vil eg hækka upp í 300 kr.; eg álít það svo stórvægilegt brot, að sektin megi ekki minni vera, ef aðaltakmark laganna á að nást.

Þá vil eg hækka hámark sekta fyrir ítrekun á brotum gegn þeim ákvæðum laganna, er. óheimila að veita, gefa eða selja áfengi. Það er; í 16. gr. ákveðið 1000 kr., en eg vil hækka það upp í 2000 kr.; það er í meira samræmi við hinar sektirnar.

Þá er síðasta breyt.till. að í stað 23. gr. komi tvær nýjar gr. er verði 23. gr. og 24. gr. Breytingin í fyrri greininni frá 23. gr. frumvarpsins, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1912, að svo miklu leyti sem ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum, stendur auðvitað í sambandi. við breytinguna á 9. gr., þar sem ætlast er til að vínsölubannið gangi ekki í gildi fyr en 1915. Eg skal geta þess, að ég sá eftir á, að greinin er óheppilega orðuð; í stað »öðlast þau gildi« ætti heldur að koma: »koma þau til framkvæmda«. Sömuleiðis væri heppilegra að orða 24. gr. þannig, að með þessum lögum séu úr gildi numin öll þau ákvæði laga nr. 26 11. nóv, 1899 og önnur lagaákvæði, er komi í bága við þessi lög.

Þetta eru að mínu áliti mikilverðustu breytingarnar, sem þarf að gera á lögunum. Fleiri breytingar gætu komið til greina, en engar eins stórkostlegar og þessar . Þegar frumv. kom fyrst fram í Nd. var það óskapnaður mesti, en hefir mjög lagast í meðferðinni á þinginu, þó enn séu á því agnúar, og jafnvel fleiri en þeir, sem eg hefi reynt að laga með breyt.till. mínum. Í sumum fyrri frumvarpsmyndunum var í ýmsum ákvæðum tekið svo hart á þeim mönnum er hafa neytt áfengis, að það var líkast því sem þau væru sprottin af einhverjum hefndarhug til þeirra. En aðalatriðið er einmitt að búa lögin þannig út, að þau geti orðið vinsæl og eftirkomendum okkar til góðs, og það gerum við með því að hafa ákvæðin ekki of tilfinnanlega hörð. Eins og lögin litu út þegar þau komu fyrst fram, virtust þau mér líkust hegningarlögum, eins og menn skoðuðu tilgang hegninganna fyrrum, nefnil. sem hefnd á glæpamanninn. En tilgangurinn með lögunum má ekki vera sá, að hefna sín á þeim sem þau brýtur; þau eiga að hafa það markmið, að uppala og bæta kynslóðir komandi tíma.