23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Þær breyt.tillögur, sem fram hafa komið í þessu máli, eru að vísu margar, og mætti líta svo á, sem hér væri um miklar breytingar á frumvarpinu að ræða. En svo er þó, þegar nánar er að gætt, ekki, og þarf því ekki mikið um þær að ræða, enda munu þær og flestar áður ræddar. Við 1. umr. málsins kom fram breyt.till. frá háttv. þm. Strandamanna, og háttv. 5. kgk. þm. lýsti því yfir, að hann hefði ýmsar breyt.till. til meðferðar og gerði hann þá þegar grein fyrir þeim. Sumar voru og þær sömu hjá báðum. Síðan hefir það verið hlutverk nefndar þeirrar, sem skipuð hefir verið í málið, að athuga þær breytingartillögur, og vinsa þær úr, sem þarfar þóttu, og fella þær inn í frumvarpið, að svo miklu leyti sem henni hefir þótt við eiga. Flestar þessar breytingar. hafa verið fremur smávægilegar. — Í 1. gr. er farið fram á, þar sem talað erum duft, kökur o. s. frv., að burtu falli orðið: »telja«, og í staðinn komi: »þar . . . sem«. Enn fremur þótti rétt að leyfa innflutning á vínanda til geymslu náttúrugripa; það er ekki tekið fram í frumvarpinu, en virðist vera alveg skaðlaust, og alveg rétt að leyfa slíkt. Þá eru og enn fremur nokkrar orðabreytingar. — Í 2. gr. eru og nokkrar slíkar í 7. og 8. línu; sum orð eru feld burtu, er að meiningunni til þóttu óviðeigandi að nefndarinnar dómi, og önnur sett í staðinn. Verði þessi breyting samþykt, þá verður eftir frumvarpinu ekki leyfilegt fyrir smáskamtalækna að flytja vínanda inn öðru vísi en í lyfjum, en nú mega þeir flytja inn hreinan vínanda til lyfjablöndunar. Hvað altarissakramentið snertir, þá áleit nefndin heppilegast að orða þá breytingu á þann veg, sem hún gerði, að »próföstum þjóðkirkjunnar og forstöðumönnum annara kirkjudeilda« skuli heimill innflutningur á því víni. — Í 4. gr. þótti okkur nokkuð ófullkomið orðalag á einum stað, og höfum við gert þar breytingu lítils háttar, sem í rauninni er viðbót og fyllir skarðið. — Enn fremur skal eg benda á, að gert er ráð fyrir, að aftan við 5. gr. bætist ákvæði um, að lögreglustjóri innsigli ílát með áfengi, sem sigla skuli, og gangi frá þeim svo að fulltrygt sé. Þetta virtist öruggara. — Á 6. gr. höfum við gert þá breytingu, að fyrir »6 mánuði« komi »12 mánuði«. Þótti okkur það hæfilegri frestur, og enda meir í samræmi við aðrar venjur í slíkum efnum. Þá er farið fram á í breyttill., að fella burtu orðin: »gera upptækt«. Lagði háttv. 5. kgk. þm. einkum áherzlu á, að hér kæmi í staðinn: »verði eign landsjóðs«. Áleit hann, að með því að segja að áfengi væri gert upptækt, væri það að sjálfsögðu eign landsjóðs, og skyldi þá og seljast við vanalegt uppboð. Reyndar litum við hinir nokkuð öðru vísi á, en viljum þó samþykkja það. — Þýðingarmesta breytingin er áreiðanlega 7. breytingartillagan við 9. gr., að í stað 1912 komi 1915. Það má segja, að hér sé að ræða um ferns konar bann: aðflutningsbann, sölubann, flutningsbann og gjafabann. Af þessari breytingu leiðir, að sölubann verður ekki fyr en 1915. Um þetta voru skiftar skoðanir í nefndinni. Vildi meiri hlutinn ekki innleiða sölubann fyr en 1915. Við vorum tveir, sem vildum innleiða það 1912, en urðum í minni hluta. Er ýmislegt, sem mælir með og móti báðum þessum tímaákvörðunum. Það, sem einkum hefir verið fram fært til meðmæla með því, að ekki komist á algert sölubann fyr en 1915, er það, að þá eru út runnin öll þau leyfi til sölu áfengra drykkja, sem um ræðir í lögunum frá 13. nóv. 1899. Verða þá og lögin af þessari ástæðu miklu aðgengilegri fyrir marga. Aftur er ýmislegt, sem mælir móti þeirri tímaákvörðun (1915), og það ekki smávægilegt. T. d. verður fyrst og fremst ólíku örðugra að halda uppi lögunum, þegar leyft er að selja vín jöfnum höndum. Og hins vegar er það ekki lítilsvert atriði, að um svo mörg ár verði dregið að firra þjóðina þessari óhamingju. En þar sem vínsala er ekki nema á fáum stöðum og þeim stöðum fer þar að auki fækkandi, og þar sem enn fremur ekki er leyfður flutningur á öðru en lyfjum, þá er það auðsætt, að skaðsemi þessa ákvæðis fer stöðugt þverrandi.

Eg skal geta þess hér, að talsvert var tilrætt um það í nefndinni, hvort ástæða væri til að ákveða nokkuð viðvíkjandi skaðabótum til þeirra manna, sem lög þessi kæmu harðast niður á. Var meiri hlutinn á því máli, að koma ekki með bein ákvæði um þetta. Og verði um skaðabætur að ræða, þá virðist réttast, að tillögur komi fram um það frá stjórninni. Með því móti væri engu tapað við þetta.

Þá er í 10. gr. gert ráð fyrir, að lögreglustjóri skoði birgðir þeirra manna, sem vínsöluleyfi hafa, þegar leyfistími þeirra er á enda, og setji innsigli sitt á þær birgðir, sem eftir eru. — Viðvíkjandi 11. gr. er að ræða um töluverðar breytingar. Það þótti réttara að sætta sig við, að menn gæfu skriflega yfirlýsingu um birgðir sinar eftir að bannið er komið á. Og í staðinn fyrir skoðun á 6 mánaða fresti þótti nægja vottorð með árs millibili.

Viðvíkjandi meðferð málsins fyrir dómstólunum og sektarákvæðum þar að lútandi, hefir komið fram breyt.till. frá háttv. 5. kgk. þm. um, að ekki megi fara fram heimarannsókn nema eftir dómsúrskurði, og skulu þá falla burtu önnur ákvæði, sem eru í ósamræmi hér við. — Viðvíkjandi ákvæði síðustu greinar um, að lögin gangi í gildi 1912, þá á það við annað en sölubannið, sem fyrst kemst á 1915.

Eg hefi þá í fám orðum farið yfir sjálft frumvarpið. — En þá er enn ein breyting á þingskjali 620. Skal eg leyfa mér að benda á, að í upphafi tillögu þessarar eru prentvillur, sem þó mun hægt að laga. En að því er breytingartillöguna sjálfa snertir, þá leggur meiri hlutinn til, að hún sé feld. Hér er sem sé átt við, að ný almenn atkvæðagreiðsla fari fram um málið, og lögin gangi því að eins í gildi, að ? greiddra atkvæða falli málinu í vil. Þetta ákvæði fanst okkur athugavert og óþarft, og enda ófært að fara nú á nýjan leik að ganga til atkvæða um það, sem þjóðin hefir þegar greitt atkvæði með. Og sízt af öllu væri ástæða til að heimta meiri atkvæðatölu við hina síðari atkvæðagreiðslu en hina fyrri; og var hin fyrri atkvæðagreiðsla svo skýr, að slíkt lægi við að vera bein móðgun við þjóðina. Að vísu er hugsanlegt, að þessi meiri hluti fengist með málinu; þó er það alls óvíst. Hins vegar væri ekki rétt að gera ráð fyrir ósigri þar, jafnvel með svo miklum kröfum um atkvæðamun; því svo vil eg ráð gera fyrir gæfu landsins, að almenningur allur muni nú áður langt líður fara að átta sig á gildi bindindisins. En hins vegar vil eg taka það fram, að ef slík atkvæðagreiðsla ætti fram að fara, þá væri sjálfsagt, að hún miðaðist alls ekki við karlmenn eingöngu, heldur alt eins kvenfólkið; og jafnt ættu ungmennin að eiga heimting á, að sýna þar skoðun sína eins og hinir eldri menn, og á eg við, að öllum mönnum 21 árs að aldri veittist þar heimild til atkvæðagreiðslu. Því í rauninni virðist þetta mál ekki síður snerta hina yngri kynslóð, nema fremur væri. Annars finn eg alls ekkert, sem með þessari endurteknu atkvæðagreiðslu mælir. Og auk þess, sem eg hefi þegar fram tekið því viðvíkjandi, skal eg og taka það fram, að slíkt mundi bæði afardýrt og fyrirhafnarmikið, og hafa í för með sér allmikinn aukakostnað fyrir landsjóð. Hins vegar skal eg aftur taka það fram, að slíkur meiri hluti, sem hér er heimtaður, hefir aldrei heyrst að krafist væri í neinu máli, og er slíkt ósanngjarnt sem mest má verða. Nauðsynin þess utan alls engin í tilliti til frágangs laganna. Lögin eru einmitt svo mild og mannúðleg, sem unt er að vera megi. Þjóðin sjálf hefir látið í ljósi ótvíræðan vilja sinn um efnishugsjónina sjálfa (»princípið«), og þar með er nóg. Þá er ekki fulltrúum þjóðarinnar til minna trúandi, en að hafa vit á að koma málinu svo í lögformaða framkvæmd, að þjóðin megi vel við una.