28.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Það hafa komið frá nefndinni 2 litlar breytingartillögur sem í rauninni eru ekki annað en orðabreytingar. Eg skal líka geta þess, að í 7. gr. stendur 10 en á að vera 11; en þetta mætti víst leiðrétta sem prentvillu.

Hér í deildinni urðu nokkrar umræður um frv. við 2. umræðu, og varð satt að segja nokkuð snögt um hvernig þeim lauk; mér sýnist því nokkur ástæða til þess að minnast lítilfjörlega á þær mótbárur, sem fram komu þá gegn málinu. Eg skal vera stuttorður, því þessi andmæli voru ekki veigameiri en svo, að það var naumast hægt að muna þau stundinni lengur. Einn háttv. þm. komst svo að orði, að hann vildi þvo hendur sínar af samþykt frumv. Það tel eg honum ekki of gott. Ein mótbára festist í minni mínu. Það var sagt að frv. væri skerðing á persónulegu frelsi manna. Eg er á alt öðru máli um þetta atriði. Eg veit ekki betur en að þjóðfélagið hafi leyfi til þess að hefta persónulegt frelsi, ef því þykir þess þurfa. Og þá er spurningin sú, hvort hér standi svo á í þessu máli. Hér er um eitur og meðferð á eitri að ræða, og það má líta svo á, sem þetta sé útvíkkun á eiturlöggjöfinni hér á landi. En því hefir líka verið neitað hér í deildinni, að um eitur væri að ræða, og það eitt kallað eitur, sem hefði skaðleg áhrif á mannlegan líkama í smáum skömtum. Eg vil ekki segja að þessi »definition« sé beint röng, en hún er mjög ónákvæm. Hins vegar er það vísindalega sannað, einmitt að því er snertir áfengi, að það hafi skaðleg áhrif á mannlegan líkama — að það sé eitur — enda þótt það sé gefið í smáskömtum. Það er t. d. enginn vafi á því, að áfengi verkar lamandi á skynjunarfæri mannsins þegar það er gefið í smáskömtum.

En nú er rétt að gera mun á eitri og eitrun, gera mun á því að vera drukkinn og að vera drykkjumaður. Eiturverkanir áfengis eru svo ótvíræðar og kunnar, að það þarf ekki að færa nein rök að því, að þær eigi sér stað. Eitrunin er tvennskonar, »akut« og »kronisk«. Önnur eitrunin segir fljótt til sín; ef einhver sést drukkinn, þá vita allir, að hann hefir eitrið í sér. Hin eitrunin leynir sér meira fyrir almennings augum.

Áfengiseitrun yfir höfuð er svo almenn, að þjóðfélagið hefir ekki að eins rétt, heldur og skyldu, til að taka hana til greina, og reyna að koma í veg fyrir hana. Þessi eitrun er hér miklu almennari og gerir meira tjón en nokkur önnur eitrun. Nú er bannað að selja hér aðrar tegundir eiturs, og þjóðfélaginu ætti að vera því meiri ávinningur að koma í veg fyrir áfengiseitrunina, sem bæði er almennust og hættulegust þjóðinni. Því að þess er einnig að gæta, sem eg hefi ekki minst á, að auk þess sem einstaklingarnir verða fyrir eitrun af áfenginu, þá hefir áfengisnautnin líka í för með sér eitrun kynslóðarinnar allrar smátt og smátt. Það er reynsla fyrir því, að þar sem áfengisnautn er mikil, deyja kynslóðirnar út, ef ekkert er að gert.

Eg skal aðeins drepa á það, að menn hafa fært það til sem ástæðu á móti þessum lögum, að það væri hart að leyfa ekki útlendingum að drekka hér í landinu. Já, það eru ljótu vandræðin! Eg held að þetta sé fremur léleg ástæða, frá siðferðislegu sjónarmiði séð. Eigum við að láta okkur standa á sama, hvernig útlendingar hegða sér hér í landinu, þó að þeir gangi hér um meira og minna vitlausir af ölæði, bara ef landsins börn eru laus við löstinn? Eg held síður en svo. Það eru til staðir hér á landi, þar sem herða þarf á lögreglueftirliti einmitt vegna drykkjuskapar útlendinga. Og slíkt hefir í för með sér kostnað fyrir landsjóð, þó ekki væri annað.

Háttv. 4. kgk. þm. sagði við 2. umr. þessa máls, að áfengiseitrið að vísu dræpi, en það dræpi mjög seint. Þetta er ekki alls kostar rétt. Áfengið verður þess oft valdandi, að menn deyja mjög fljótlega. Hefir ekki hver maður heyrt ótal dæmi þess, að slysfarir hljótast beint af því, að menn hafa verið ölvaðir? Menn detta af hestbaki í á, fara óvarlega á sjó, svo það veldur slysi o. s. frv. í öllum slíkum tilfellum drepur áfengið sannarlega ekki seint, það drepur einmitt mjög fljótt. Og þess konar tilfelli eru alls ekki fágæt.

Það hefir verið sagt, að menn hafi ekki haldið uppi neinni vörn fyrir áfengið fyrir 10. sept. í haust, og því sé ekki að marka atkvæðagreiðsluna. En af hverju vantaði vörnina? Af engu öðru en því, að þeir menn, sem halda vilja áfenginu, eru orðnir í miklum minni hluta. Mótspyrnan á móti þeim, sem berjast fyrir útrýming áfengisins, er orðin algerlega lömuð. Það eru ekki mörg ár síðan að hver maður, sem »agiteraði« fyrir bindindishreyfingunni, var svívirtur á allar lundir. Nú er hugsunarhátturinn orðinn alt annar, hann er orðinn svo breyttur, að nú er ekki hægt að halda uppi »agitation« á móti útrýming áfengis úr landinu.

Það hefir enn verið haft á móti bannlögunum, að við værum fyrstir allra þjóða til að lögleiða þau. Eg veit ekki hvort þetta er rétt. En ef svo er, þá vil eg segja: Guði sé lof, að við erum fyrstir. Alstaðar er verið að berjast á móti áfenginu, og það væri mikill sómi fyrir okkur, ef við yrðum fyrstir til að leiða þá baráttu til sigurs. Eg er viss um, að við getum ekkert gert það, er veki meiri eftirtekt á okkur á meðal menningarþjóða heimsins.