28.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

16. mál, aðflutningsbann

Júlíus Havsteen:

Eg skal ekki tala margt um þetta frumvarp nú. Eg ætla að eins að kveðja það, áður en það verður afgreitt héðan úr deildinni.

Það hefir verið talað um, að hjá öðrum þjóðum væri fordæmi fyrir slíkum lögum, og þá sérstaklega vitnað í ýms fylki í Ameríku, einkum Maine, þar sem templarar hafa sagt að væri algert aðflutningsbann og hefði gefist vel. Eg hefi fengið nokkrar upplýsingar um þetta og komist að því, að frásagnir templara eru ekki alveg réttar. Bannið í Maine er ekki algert, heldur »partielt«. Það eru bannaðar sumar tegundir áfengis til þess að innflutningur þeirra skaði ekki atvinnu landsmanna, sem stunda eplarækt, en úr eplunum er búinn til sá drykkur, er nefnist »Cider«, og sem er alláfengur og nær alt að því 7 gráða styrkleika. Það hefir verið reynt að koma algerðu aðflutningsbanni á í 17 fylkjum, en það hefir alstaðar mistekist, nema ef til vill í einu þeirra. Lögin hafa verið brotin og þótt gera meiri skaða en gagn.

Háttv. 6. kgk. þm. leiddi ljós rök að því, að slík lög væru illa viðeigandi og óhæf, þar sem þau skertu rétt manna til að ráða sér sjálfir, skertu persónulegt frelsi manna. En háttv. þm. V.-Ísf. kvað slíka skerðing frelsisins réttlætast af því, að hér væri að ræða um þjóðarböl, sem nauðsynlegt væri að stemma stigu við. Þetta er léttvæg ástæða þegar þess er gætt, að Íslendingar eru nú sú þjóð, sem minst neytir víns allra mentaðra þjóða.

Háttv. þm. Akureyrar komst töluvert út frá aðalefninu og fór að tala mikið um, að áfengið væri eitur. En hvað kemur það málinu við? Það getur ekki réttlætt það, að skerða frelsi manna, enda reyndi háttv. þm. ekki að færa fram neinar röksemdir í þá átt.

Aðalástæðan á móti þessum lögum er sú, að þau verða ekki til neins gagns. Þá ástæðuna legg eg mesta áherzlu á, og hitt einnig, að þau verða okkur til minkunar í augum annara þjóða. Aðrar þjóðir halda að við séum drykkjuræflar, úr því nauðsyn er á slíkum lögum. Það er þvert á móti því, að bannlög verði okkur til lofs og frægðar; þau setja brennimark á þjóðina, sem ef til vill verður ómögulegt að afmá aftur. Því að ef við nemum lögin úr gildi aftur, þá segja útlendingar: Þarna sjáum við, þeir gátu þó ekki án áfengis verið.

Enn er þess að geta, að við megum vel búast við því, að útlendar þjóðir vilji ekki láta okkur haldast uppi slík lög. Það eru stór lönd til, sem lifa aðallega á vínframleiðslu, og þeim er eðlilega illa við bannlög á móti víni. Mikið af því víni, sem hingað kemur til lands, kemur frá Frakklandi, sumpart framleitt þar og sumpart flutt þangað frá Spáni og Ítalíu. Eg tel víst, að háttv. þingmönnum sé kunnugt um, að einn fjármálaráðgjafi Dana ætlaði að innleiða stimpilgjald á víni í Danmörku. En hann varð að hætta við það af því, að þá komu hótanir frá Frakklandi um, að Danir fengju þá ekki lán, sem þeir voru þá að sækja um þaðan, og að dönsk verðbréf yrðu ekki »nóteruð« í kaupmannahöllinni í París. — Þetta sýnir, að aðrar þjóðir láta ekki bjóða sér alt, þegar um það er að ræða að leggja bönd á viðskifti manna.

Eg held að þessi lög gætu orðið okkur til skaða á marga lund, og hlýt eg því að vera þeim algerlega mótfallinn.