09.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Kristinn Daníelsson:

Eg mintist þegar við 1. umr. frumvarpsins á það, að eg gæti ekki felt mig við síðari málsgrein þess, og hefi eg nú komið með breytingartill. um að fella hana burtu. Hún inniheldur tvö atriði sem bæði eru óviðkunnanleg og óþörf.

Eg skal taka síðara atriðið fyrst, ákvæðið um að gjalda skuli valdsmanni ferðakostnað. Þetta er beinlínis ákveðið í 6. gr. laga þeirra, er vitnað er til í frumv. (1. 19. febr. 1886), þar sem stendur: »Nú þarf valdsmaður að takast ferð á hendur, til að gefa hjón saman, og skal þá greiða honum dagpeninga og farareyri« o. s frv. Í frv. er því verið að segja að fara skuli eftir því, sem þegar er ótvíræð lög, og er auðsætt að það er óþarft.

Að því er snertir fyrra atriðið, er það augljóst af því sem eg las upp áðan, að í hinum upprunalegu lögum er gjört ráð fyrir því, að valdsmaður þurfi að takast ferð á hendur, og er því óþarft að taka það fram í frumv., að »ósk brúðhjónanna um, hvar og hvenær hjónavígslan skuli fara fram, skal valdsmaður taka til greina«. Auk þess er ákvæði þetta óviðkunnanlegt þegar litið er á það, að engin slík ákvæði eru um störf presta, heldur er þetta látið vera sjálfrátt mál og samningsatriði, eins og eðlilegast er.

Í fyrri málsgrein frumv. stendur »gjald fyrir þau« (í fleirtölu), en þetta ábendingarfornafn bendir til orðsins »leyfisbréfi« (í eintölu) á undan; þetta er rangt, og vil eg skjóta því til forseta, hvort ekki mætti laga það sem prentvillu.